140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[15:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir segir að þetta frumvarp er til jöfnunar en ekki til sparnaðar. En þar sem hv. þingmaður er nú formaður í hv. velferðarnefnd og fær verkefnið í sínar hendur væri ekki úr vegi, miðað við það sem hún sagði, að samhliða því að auka jöfnuð yrði líka horft til þess hvort hægt væri að spara, ekki veitir af. Ef við ætlum með þessum jöfnuði að efla kostnaðarvitund okkar, notenda þjónustunnar, gæti verið af hinu góða að fara samhliða í sparnað.

Á Grænlandi er áhugavert hvernig utan um þetta er haldið, hvar lyfin eru ókeypis, sem er þá væntanlega vegna þess að lítil sem engin sóun er vegna stórra pakkninga og þess að einhverjar aukaverkanir gera það að verkum að fólk getur ekki neytt þeirra lyfja sem það er látið fá í upphafi.

Ég hvet hv. formann velferðarnefndar, Álfheiði Ingadóttur, til að taka þessa sparnaðarhugmynd til athugunar samhliða því að tryggja að jöfnuður ríki hér eins og fram kemur í þessu frumvarpi.