140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[15:40]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langa ræðu en vil þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir þá vinnu sem hann hefur lagt í endurskoðun á því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi. Ég tel að það sé mjög eðlilegt að það taki meira en eitt þing að afgreiða mál af þessu tagi og sé í rauninni af hinu góða að við höfum náð að staldra við og nýta okkur vel þær miklu og góðu umsagnir sem komu um fyrra frumvarpið. Hér er um að ræða algjöra kerfisbreytingu sem snertir viðkvæman málaflokk og greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjum. Ég fagna því að við gáfum okkur tíma og hvernig útkoman varð á því frumvarpi sem nú liggur fyrir. Ég ætla ekki að fara neitt frekar út í það en tel að núverandi velferðarnefnd hafi gott veganesti úr fyrri umsögnum til að vinna úr sem þetta frumvarp hefur tekið mið af.

Aðeins þessu til viðbótar, af því hér var rædd greiðsluþátttaka lyfja sem eru lyfseðilsskyld, þá skiptir auðvitað miklu máli að flokkun á lyfseðilsskyldum lyfjum sé með þeim hætti að almenningur sé sáttur við hana og þeir sem ávísa lyfjunum, þ.e. læknar. Sýklalyfin voru tekin út á tímabili og ekki niðurgreidd. Ég tel að það hafi verið röng ákvörðun á sínum tíma því að ávísun lyfja fer jú eingöngu í gegnum hendur lækna. Að mínu mati hefði verið mikilvægara að hreinlega endurmennta lækna til að fara betur með ávísanir á sýklalyf. Ég ætla að vona að þetta tímabil og í raun og veru viðhorfsbreyting líka hafi orðið til þess að þrátt fyrir að sýklalyfin séu tekin undir hér verði það ekki til þess að farið verði að ávísa þeim frekar en gert er í dag.

Það er mikilvægt að við höldum áfram að auka samheitalyfin og getum verið inni á norrænum markaði þannig að samheitalyfin verði ódýrari. Ég get ekki stillt mig um að minna enn og aftur á rafræna sjúkraskrá sem er náttúrlega læknum og meðferðaraðilum mikið hald og traust, eykur öryggi í meðferð sjúklinga og ávísun lyfja. Það næsta sem ég tel að við þurfum að einhenda okkur í er að koma á rafrænni sjúkraskrá til að fylla upp í þá heimild sem nú er veitt með þessu frumvarpi að koma á miðlægum lyfjagreiðslugrunni. Ég ætla ekki að fara neitt frekar út í þann grunn, en það var meðal annars það sem vantaði í fyrra frumvarpið að mínu mati og þær breytingar á lyfjalögum sem hér eru lagðar til þannig að það væri alveg skýrt hvert markmið frumvarpsins væri.

Þetta er byrjunin. Við munum halda áfram og læra af reynslunni og koma þessu greiðsluformi yfir á aðra heilbrigðisþjónustu. Það er verkefni sem bíður okkar. Ég óska velferðarnefnd velfarnaðar í vinnslu þessa máls og vona að okkur gangi vel að afgreiða þetta frumvarp eins og það er unnið núna.