140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar.

359. mál
[15:44]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Í frumvarpinu er lagt til að gildistökuákvæði um að Sjúkratryggingar Íslands annist gerð samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili verði frestað um eitt ár, eða til 1. janúar 2013.

Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar skal sjúkratryggingastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, semja við heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir, fyrirtæki og einstaklinga um kaup á heilbrigðisþjónustu og greiða veitendum heilbrigðisþjónustu endurgjald samkvæmt samningi. Í samræmi við það annast Sjúkratryggingar Íslands nú gerð samninga sem áður voru á hendi samninganefndar ráðherra og samninga sem heilbrigðisráðuneytið gerði áður. Lögin tóku gildi 1. október 2008 en gert var ráð fyrir að ákvæði um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili kæmu til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2010. Gildistöku þeirra ákvæða hefur tvívegis verið frestað og taka þau að óbreyttu gildi 1. janúar 2012.

Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar er nú unnið að flutningi málefna aldraðra til sveitarfélaga og er stefnt að því að flutningurinn komi til framkvæmda 1. janúar 2013. Því þykir eðlilegra að ákvarðanir um fyrirkomulag samninga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og skilgreiningu heilbrigðisþjónustu sem veitt verði á hjúkrunarheimilum verði teknar í tengslum við undirbúning flutnings málaflokksins til sveitarfélaga og er gert ráð fyrir að Sjúkratryggingar Íslands komi að þeirri vinnu. Þegar er búið að skipa vinnuhóp til að vinna að því og eiga Sjúkratryggingar þar fulltrúa.

Því er lagt til að gildistökuákvæði laganna um samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili verði frestað til 1. janúar 2013. Af því leiðir að framlengja þarf heimild ákvæðis til bráðabirgða IV til ákvörðunar á daggjöldum vegna hjúkrunarrýma með reglugerð. Lagt er til að sú heimild verði sömuleiðis framlengd um eitt ár.

Eins og fyrr greinir kom ákvæði laganna um samninga sjúkratryggingastofnunar við heilbrigðisstofnanir sem reknar eru af ríkinu að óbreyttu til framkvæmda 1. janúar 2012. Frá þeim tíma ætti sjúkratryggingastofnun, samkvæmt 39. gr. laganna, m.a. að semja við Landspítala, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og svæðisbundnar heilbrigðisstofnanir um kaup á heilbrigðisþjónustu og greiða þeim endurgjald samkvæmt samningi. Í athugasemdum við 39. gr. laganna kemur fram að sjúkratryggingastofnun taki við því hlutverki sem heilbrigðisráðuneytið hefur sinnt á sviði samningsgerðar við heilbrigðisstofnanir og fjárveitingar til heilbrigðisstofnana.

Nú er ljóst að enn vantar talsvert á að Sjúkratryggingar Íslands séu í stakk búnar til að semja við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins um alla heilbrigðisþjónustu sem þær veita. Í IV. kafla laga um sjúkratryggingar er að finna ítarlega lýsingu á fyrirkomulagi og aðferðafræði samningsgerðar og eftirfylgni. Margháttaðar kröfur um uppbyggingu og þróun eru gerðar til Sjúkratrygginga Íslands og þeirra aðila sem gert er ráð fyrir að þær semji við. Við núverandi aðstæður hefur stofnunin ekki yfir að ráða nauðsynlegum mannafla og fjárveitingum til að þær geti sinnt að fullu því hlutverki sem þeim er ætlað samkvæmt kaflanum.

Með vísan til framangreinds þykir rétt að fresta enn um sinn gildistöku ákvæða um samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili og um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins. Lagt er til að gildistöku verði frestað í eitt ár. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða IV, um heimild til ákvörðunar á daggjöldum vegna hjúkrunarrýma með reglugerð, verði framlengt til sama tíma.

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er frestun lokaáfanga á flutningi samningsgerðar til Sjúkratrygginga Íslands eina breytingin sem felst í frumvarpinu og hef ég nú gert grein fyrir ástæðum frestunarinnar. Ég legg áherslu á að þar sem lagt er til að ákvæði sem annars tekur gildi 1. janúar 2012 verði frestað um eitt ár er nauðsynlegt að frumvarpið verði að lögum á haustþingi.

Leyfi ég mér því, hæstv. forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hæstv. velferðarnefndar og til 2. umr.