140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar.

359. mál
[15:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að það frumvarp sem liggur fyrir veldur mér vonbrigðum. Mér er minnisstæð atkvæðagreiðsla á lokadögum í desember þegar ég m.a. samþykkti að frestur á þeim lögum sem við ræðum hér yrði framlengdur til 1. janúar 2012, í þeirri trú að farið yrði í að vinna verkefnið. Það er ljóst að það hefur ekki verið gert. Þess vegna hlýt ég, frú forseti, að lýsa vonbrigðum mínum með að árið 2011 hafi ekki verið nýtt í þá vinnu sem lagt var upp með og fara átti í þegar frumvarpið var samþykkt í desember 2010.

Hæstv. velferðarráðherra lýsti því yfir að til stæði að færa málefni aldraðra yfir til sveitarfélaga, þess vegna hefði verið tekin sú ákvörðun að fara ekki í þessar breytingar eða klára verkefnið fyrr en fyrir lægi með hvaða hætti það yrði gert. Mig langar af því tilefni aðeins að ræða málefni aldraðra, vegna þess að flutningur málefna aldraðra til sveitarfélaga er annað og meira en eingöngu spurning um hjúkrunarrými eða dvöl á hjúkrunarheimilum. Það eitt að ræða hjúkrunarrými og hvernig greiða eigi fyrir slík rými er mjög sérhæfður þáttur í málefnum aldraðra. Það kann að vera að hægt hefði verið að ganga frá því einu vegna þess að hér stendur, með leyfi forseta:

„Nú er ljóst að enn vantar nokkuð upp á að Sjúkratryggingar Íslands verði í stakk búnar að semja við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins, svo og sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili.“

Til eru samningar í dag við þá sem standa utan ríkisgeirans og reka hjúkrunarheimili. Það eru sjálfstætt starfandi stofnanir og sjálfseignarstofnanir.

Ég velti því fyrir mér: Af hverju var ekki hægt að fara ofan í saumana á þessum samningum og skoða þá sérstaklega?

Ljóst er, frú forseti, að þetta ár, 2011, sem nýta átti í verkefnið hefur ekki verið nýtt og hér liggur fyrir frumvarp um frestun um eitt ár til viðbótar, til 2013. Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með að árið hafi ekki verið notað til þessa en geri ekki athugasemdir við frumvarpið að öðru leyti.