140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

breytingar á ESB og aðildarumsókn Íslendinga.

[15:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er vonandi kunnugt um það ástand sem nú ríkir innan Evrópusambandsins. Merkel, kanslari Þýskalands, lýsir því sem mestu krísu sem Evrópa hafi gengið í gegnum frá seinni heimsstyrjöld. Nú eru menn ekki aðeins sammála um þurfi að gerbreyta eðli Evrópusambandsins heldur eru þeir byrjaðir að vinna þá vinnu að breyta Evrópusambandinu í eitthvað allt annað en það var. Engu að síður eru menn ekki vissir um að það dugi til að bjarga evrunni.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarmál eru að sjálfsögðu í endurskoðun og Evrópusambandið mun ekki geta rætt þau mál eða leitt til lykta við Íslendinga fyrr en 2013 eða 2014 í fyrsta lagi. Við þessar aðstæður lagði ég fram nokkurs konar sáttatillögu, einu skynsömu miðjuleiðina við þessar aðstæður, að fresta aðildarferlinu sem Ísland er nú í við Evrópusambandið. Þetta er reyndar í samræmi við það sem fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafði áður bent á. Síðan þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert þetta að sáttatillögu hjá sér og náð að sameina fylkingar Evrópusambandssinna og -andstæðinga um þessa tillögu sem nýtur líka töluverðs fylgis hjá Vinstri grænum.

Hvernig stendur þá á því að hæstv. fjármálaráðherra boðar áfram og vill ekki hvika frá harðlínustefnu í þessum aðildarmálum og er á margan hátt orðinn kaþólskari en páfinn í Evrópusambandsmálum, og þegar ég segi páfi á ég við hæstv. utanríkisráðherra. Er ekki ljóst að við núverandi aðstæður þarf að endurskoða þetta ferli? Getur verið að ástæðan fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra vill í engu breyta ferlinu sé sú að hann líti á það sem límið sem haldi ríkisstjórninni saman? Hann sé farinn að halda Samfylkingunni við efnið vegna þess að hann gerir sér grein fyrir því að ef menn sættist á að gera dálítið hlé á ferlinu mundu opnast möguleikar á annars konar ríkisstjórn og jafnvel kosningum. Er það þess vegna sem hæstv. fjármálaráðherra heldur nú Samfylkingunni við efnið í Evrópusambandsmálum?