140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

breytingar á ráðuneytum.

[15:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi beina einni spurningu til hæstv. fjármálaráðherra sem jafnframt er annar tveggja oddvita ríkisstjórnarinnar. Hún varðar breytingar á ríkisstjórn og þá er ég ekki að spyrja um einstaka menn eða örlög þeirra.

Á hinn bóginn hefur að undanförnu verið nokkuð um það rætt í fjölmiðlum að til greina geti komið af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið í núverandi mynd og/eða sameina það fjármálaráðuneyti. Þessar fregnir vöktu nokkra athygli um helgina og urðu m.a. hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tilefni til að bregðast til varnar fyrir tilvist ráðuneytisins. Mér þætti gott ef hæstv. fjármálaráðherra gæti upplýst þingið um hvort áform í þessa átt eru á borðum þessarar ríkisstjórnar.