140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

breytingar á ráðuneytum.

[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Það er alls ekki ómálefnalegt að spyrja eins og hann gerði um þetta. Mér varð það kannski á, eins og stundum er sagt að komi fyrir prestana, að skamma þá fyrir lélega kirkjusókn sem þó mæta í messuna. Ég beindi orðum mínum ekkert sérstaklega til hv. þm. Birgis Ármannssonar þegar ég lét það eftir mér að fá smáútrás fyrir gremju mína yfir því hvernig þessi umræða hefur á köflum verið rekin og einstaklingar nafngreindir og dregnir inn í hana á grundvelli hreinna getgátna.

Það sem gert var var að efnahagsmálin voru sameinuð á einn stað en þau höfðu áður legið hjá þremur ráðuneytum og það hafði fengið áfellisdóm í þeim skýrslum sem við fengum og hjá ráðgjöfum sem hér störfuðu og ég er sammála því mati. Eitt af því sem fór úrskeiðis hér var að dreifa efnahagsmálum á þrjú ráðuneyti, forsætisráðuneyti sem fór með Seðlabankann, viðskiptaráðuneytið með sína hluti og síðan fjármálaráðuneytið með sumt. En hvernig sem þessu verður fundinn staður innan Stjórnarráðsins til frambúðar á yfirstjórn efnahagsmála að vera samræmd á einum stað. Svo mikið vil ég segja.