140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

yfirlýsing um forsendur kjarasamninga.

[15:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í ljósi þeirra viðmiða sem hæstv. fjármálaráðherra setti fram áðan skal ég reyna að vera málefnaleg, með manndómsbrag, og forðast skotgrafagetgátuorðrómsstíl í málflutningi mínum.

Það liggur fyrir að ríkisstjórnin gaf út viljayfirlýsingu í vor sem var forsenda undirritunar kjararsamninga á almennum vinnumarkaði. Þar var gert ráð fyrir því að bætur úr almannatryggingum mundu hækka í takt við lægstu laun á vinnumarkaði.

Það hefur verið í fréttum, þó sérstaklega í dag, að forsvarsmenn bæði VR og ASÍ hafa áhyggjur af því að ríkisstjórnin ætli ekki að virða þessa viljayfirlýsingu. Fundir hafa verið í þinginu, meðal annars í morgun í velferðarnefnd þar sem fulltrúar þessarar samtaka mættu. Það kom fram í máli formanns VR, og kemur fram í frétt á vísi.is, að þar líta menn svo á að það sé alvarlegt mál ef ríkisstjórnin ætlar ekki að standa við þessa viljayfirlýsingu og menn verði að meta það 20. janúar hvort taka eigi samninginn upp aftur með einhverju móti eða hreinlega segja honum upp. Af þessu hef ég verulegar áhyggjur og þingheimur allur geri ég ráð fyrir. Þess vegna vil ég beina eftirfarandi fyrirspurnum til hæstv. fjármálaráðherra:

1. Var þessi viljayfirlýsing ekki gefin?

2. Stóð ekki til af hálfu ríkisstjórnarinnar að virða þessa viljayfirlýsingu og standa við hana?

3. Ef ekki, hvers vegna var þá viljayfirlýsingin gefin ef aldrei stóð til að virða hana?

Mig langar jafnframt að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra hver afstaða hans er til yfirlýsingar formanns VR og þeirrar yfirlýsingar sem ASÍ gaf út í morgun vegna sama máls.