140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

yfirlýsing um forsendur kjarasamninga.

[15:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í yfirlýsingunni er talað um að þessi mál verði meðhöndluð með hliðstæðum hætti og kjarasamningar kveða á um. Sú leið var valin síðastliðið vor að fara í ríkulegustu mögulegu útfærslu á því að skila kjarabótum til atvinnulausra og þeirra sem reiða sig á almannatryggingakerfið umfram það sem hægt er að segja að séu nokkra samningsskuldbindingar um. Þær hækkanir ganga að sjálfsögðu allar inn í grunn fjárlaga fyrir árið 2012 og munu leiða til þess að þær bætur hafi hækkað um tæplega 12%, með þeim hækkunum sem verða á þeim nú um áramótin.

Sú leið var valin í framsetningu fjárlagafrumvarpsins að hækka allmarga liði um almennu launahækkunina á næsta ári, þ.e. 3,5%, og þess sér stað víðar en í þessu tilviki svo sem í tekjuskattsmörkum o.fl.

Það verður líka að hafa í huga að það er heildarútkoman sem skiptir máli að lokum. Þegar full verðtrygging persónufrádráttar og breytt framsetning tekjumarka í tekjuskattskerfinu bætast við tel ég að fyllilega sé hægt að segja að þessum hópum sé skilað kjarabótum sem kallast geti hliðstæðar við almenna kjarasamninga.

Það eru fleiri markmið sem aðilum vinnumarkaðarins voru líka vel ljós þegar þessi mál voru rædd á vordögum, eins og þau að ná fram tilsettum markmiðum í afkomu ríkissjóðs og missa ekki fyrir borð það mikilvæga verkefni að skila ríkissjóði hallalausum innan ásættanlegs tíma. Það verður því að hafa heildarsamhengið í huga. Þegar heildarmyndin er skoðuð af sanngirni held ég að ekki sé hægt að herma nein svik í þessum efnum upp á ríkisstjórnina. Þvert á móti má benda á ýmsa liði sem eru langt umfram nokkrar samningsskuldbindingar eins og full desemberuppbót á atvinnuleysisbætur, bæði í fyrra og aftur í ár, og í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár (Forseti hringir.) er gert ráð fyrir hinu sama á árinu 2012.