140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

yfirlýsing um forsendur kjarasamninga.

[15:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað engin einhlít regla til sem hægt er að segja að sé rétt eða röng í þessu þegar hið flókna kerfi allt saman og einstakir bótaflokkar í því eru skoðaðir. Það er heildarmyndin og heildarútkoman sem skiptir máli og hvernig lífskjör hverra hópa um sig eru að þróast. Ef menn líta yfir það af einhverri sanngirni þá sjá menn að allar rannsóknir sýna, allur samanburður úr grunni álagningar ríkisskattstjóra, og rannsóknir fræðimanna í Háskóla Íslands, að kjör hinna tekjulægstu hafa hlutfallslega varist best (Gripið fram í.) í gegnum þessa niðursveiflu.

Það skiptir líka máli fyrir þessa hópa að verið er að nota allt svigrúm og reyndar meira en það, svigrúm sem ekki er til, til að draga enn úr niðurskurði í velferðarkerfinu, einkum heilbrigðismálum. Það skiptir líka máli. Það verður að gera þá kröfu til hv. þingmanna sem og aðila vinnumarkaðarins að þeir horfi á heildarmyndina, heildarútkomuna og hvort hún sé (Forseti hringir.) eins ásættanleg og aðstæður frekast leyfa. Ég tel að svo sé.