140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

lög og reglur um erlendar fjárfestingar.

[15:28]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að lítill jóla- og sáttahugur er við ríkisstjórnarborðið þessa dagana. Nú síðast um helgina fengu landsmenn fréttir af enn einum ágreiningsþættinum en hann lýtur að áformum Kínverja um fjárfestingar í ferðaþjónustu á Íslandi. Hæstv. innanríkisráðherra varaði við þeim áformum sem upplýst var um um helgina, að ætlunin væri að leiðbeina þeim kínverska í gegnum íslenska reglugerðafarganið og lagaskóginn á leið sinni til að fjárfesta í ferðaþjónustu hér á landi. Hann vitnaði til fyrri fordæma og nefndi sérstaklega hið svokallaða Magma-mál þar sem menn hefðu leiðbeint fjárfestum fram hjá þessu regluverki.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa hjá hæstv. iðnaðarráðherra við því viðtali sem hér er vitnað til við hæstv. innanríkisráðherra. Ég vil inna hæstv. innanríkisráðherra eftir viðbrögðum hans við fréttum um málflutning hans og hverju hann svari þeim áburði að hann sé að dylgja um það verk sem kunni að eiga sér stað. Ég tel nauðsynlegt fyrir umræðuna og þá upplýsingu sem gefa þarf og halda í heiðri varðandi þetta mál að hæstv. innanríkisráðherra upplýsi almenning í landinu um hvort hann ætli að sitja undir ásökun um að hann sé að dylgja um hvernig ríkisstjórnin ætli að vinna að framgangi þessa máls.