140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

staða framhaldsskólanna.

[15:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um stöðu framhaldsskólans þarf að fara yfir stöðu hans og getu bæði fjárhagslega og faglega til að sinna lögbundnu hlutverki sínu til að framfylgja stefnumörkun um menntamál á framhaldsskólastigi. Þá þarf einnig, og ekki síður, að ræða stöðu íslenskra framhaldsskóla í samanburði við framhaldsskóla í Evrópu og samkeppnisstöðu íslenskra ungmenna gagnvart jafnöldrum sínum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ef litið er til annarra landa í Evrópu skera íslenskir framhaldsskólar sig úr vegna meira brottfalls, einnig vegna þess að færri útskrifast hér með starfsmenntun og síðast en ekki síst er námið í framhaldsskólum hér á landi lengra en í öðrum Evrópulöndum. Íslenskir framhaldsskólanemendur eru að meðaltali rúmu ári lengur að ljúka stúdentsprófi en önnur ungmenni á Evrópska efnahagssvæðinu og við það eitt skekkist samkeppnisstaða þeirra gagnvart jafnöldrum sínum.

Helsti kostur íslenska framhaldsskólakerfisins er hversu sveigjanlegt það er. Það er skoðun þeirrar sem hér stendur að mikilvægt sé að halda þeim sveigjanleika til framtíðar, en stytta þurfi námstímann þannig að meginviðmiðið sé að flestir nemendur klári nám í framhaldsskóla á þremur árum líkt og í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.

Ágætar breytingar voru gerðar með lögum um framhaldsskóla árið 2008 og möguleikar opnaðir fyrir námskrárgerð í framhaldsskólunum sem styttir námið frá því sem nú er. En jafnvel þó að allir framhaldsskólarnir nýttu sér þá heimild næðist ekki það markmið að meðalnámstími til stúdentsprófs hér á landi styttist um eitt ár vegna viðmiða um lágmarkseiningafjölda fyrir stúdentspróf. Gæta þarf að stöðu íslenskra framhaldsskóla samanborið við framhaldsskóla annarra landa með hagsmuni íslenskra ungmenna í huga, hvort sem um er að ræða bóknám eða starfsnám.