140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

staða framhaldsskólanna.

[15:52]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu, það er gott að hún fari fram. Staða framhaldsskólanna er heitið á henni og ég held að staða framhaldsskólanna sé að einhverju leyti sú að þeir eru stútfullir af nemendum og að í mörgum þeirra séu fleiri nemendur en gert var ráð fyrir við hönnun bygginganna og við fjárveitingar. Það er mjög gott að ungt fólk sæki sér menntun, það er mjög gott mál að við menntum fleiri. Við verðum sem samfélag ríkari í kjölfarið. Það er hins vegar verra ef öllum þessum nemendum fylgir ekki það fé sem til þarf.

Sá niðurskurður sem hefur verið krafist af framhaldsskólanum er að mínu mati óraunhæfur, a.m.k. til lengri tíma, þótt hugsanlega geti einhverjir skólar hert sultarólina í einhvern tíma. Skólarnir voru fyrir orðnir nokkuð hagkvæmar einingar þannig að þetta gengur ekki til lengdar.