140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

staða framhaldsskólanna.

[15:53]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis hv. málshefjanda Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þessa umræðu sem og hæstv. ráðherra. Mig langar aðeins að minnast á það að þrátt fyrir lögin frá 2008, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, hefur innleiðingin ekki átt sér stað og henni hefur verið frestað til 2015. Þetta hefur að mínu mati sérstaklega bitnað á verklegu námi sem er kannski ekki akkúrat það nám, þó að það sé dýrara, sem við ættum að herða sultarólina hjá. Það stangast örlítið á í mínum huga að samhliða því að draga úr því að styrkja verklegt nám í framhaldsskólum förum við af stað með verkefni sem heitir Nám er vinnandi vegur innan framhaldsskólanna og ætlum að veita til þess á næstu árum hátt í 7 milljarða kr. Við leggjum af stað með vinnustaðanámssjóð í tengslum við Nám er vinnandi vegur og mér er spurn: Ef við þurfum að fresta við innleiðingu laganna frá 2008, stórum þætti er tengist verklegu námi almennt, setjum síðan þetta verkefni á laggirnar, stangast það ekki á við nálgun okkar til framhaldsskólanna þegar að þessu er komið? Ekki svo að skilja að ég fagni ekki Nám er vinnandi vegur fyrir 16–25 ára gamalt fólk sem er atvinnulaust. Ég geri það svo sannarlega, en það hefði sjálfsagt verið hægt að beina því inn í framhaldsskólann án þess að gera þessa tilraun ef við hefðum farið í innleiðingu laganna frá 2008.

Virðulegi forseti. Tíminn er stuttur. Hæstv. menntamálaráðherra nefndi að skólarnir ynnu engu að síður að (Forseti hringir.) innleiðingu með einum eða öðrum hætti og fjölbreyttari námsbrautum og því ber að fagna.