140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

sjúkraflugvellir.

243. mál
[16:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að ræða málefni svokallaðra sjúkraflugvalla hér á landi. Umræða um heilbrigðismál og heilbrigðisstofnanir og því miður nauðsynlegan niðurskurð á þeim hefur verið áberandi í þjóðmálaumræðunni og hinni pólitísku umræðu á undanliðnum vikum og mánuðum og er það fullkomlega eðlilegt. Í þessari umræðu hefur iðulega gleymst að ræða málefni sjúkraflugvalla sem eru afskaplega mikilvægir þegar horft er til heildarmyndarinnar í heilbrigðisþjónustu hér á landi.

Nú er sjúkraflug mjög mikið á Íslandi enda einungis tvö sjúkrahús sem geta sinnt hátækniaðgerðum, Landspítalinn í Reykjavík og Sjúkrahúsið á Akureyri. Þeir spítalar eru sem kunnugt er einmitt skilgreindir sem slíkir í heilbrigðisþjónustunni og lúta öðrum lögmálum en aðrar heilbrigðisstofnanir hér á landi hvað þetta atriði varðar.

Sjúkraflug fer fram við margvíslegar aðstæður. Um 430 sjúkraflug eru að jafnaði á hverju ári hér á landi og þar af er að sögn þeirra sem gerst þekkja til málaflokksins um helmingur með sjúklinga í lífshættu. Því má segja að á tíu árum sé verið að fljúga með um tvö þúsund Íslendinga í lífshættu í sjúkraflugi.

Frú forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. innanríkisráðherra um þetta efni vegna þess að ástand margra flugvalla hér á landi sem eru skilgreindir sem sjúkraflugvellir er tiltölulega bágborið og hafa þeir orðið út undan í uppbyggingu af margvíslegum ástæðum. Þeir eru víða lélegir malarvellir sem erfitt er að halda við og jafnvel leikur vafi á því hver eigi að halda þeim við. Sveitarfélög víða um land hafa gripið inn í það ferli til þess að hafa vellina boðlega en ég tel að huga þurfi að sjálfsögðum öryggiskröfum þegar við horfum til þess mikla fjölda Íslendinga sem þarf á þessari þjónustu að halda á hverju ári.

Því beini ég þeirri spurningu, frú forseti, til hæstv. innanríkisráðherra hvernig þessum málum er fyrir komið í hans ágæta ráðuneyti. Er sérstaklega horft til þessa málaflokks þegar kemur að eðlilegu viðhaldi og þeirri þjónustu sem þessir vellir þurfa á að halda?