140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

sjúkraflugvellir.

243. mál
[16:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög þörf umræða og ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að taka þetta málefni upp. Ég vil sérstaklega segja að ég er sammála því meginsjónarmiði sem fram kom í máli hans, að horfa þurfi á þessi mál heildstætt með tilliti til samgangna og með tilliti til heilbrigðisþjónustunnar. Þannig kom það upp á mitt borð í umræðu um stuðning við flugið innan lands, þ.e. áhyggjur manna annars vegar vegna þess að það kynni að draga úr heilbrigðisþjónustu á Sauðárkróki með tilliti til endurhæfingar og að dregið hefði úr stuðningi við flugið hins vegar. Þetta er samhengi hlutanna á þessum stöðum. Ég tek því undir það meginsjónarmið að máli skipti að horfa heildrænt á málin.

Spurt er hversu margir skilgreindir sjúkraflugvellir séu á Íslandi. Nær væri hugsanlega að ræða um flugvelli og lendingarstaði sem hægt er að nota fyrir sjúkraflug en tiltekna skilgreinda sjúkraflugvelli. Slíkir lendingarstaðir og flugvellir eru 21 á landinu.

Hver er skilgreining ráðuneytisins á sjúkraflugvelli? Tiltekin skilgreining er ekki notuð í þessu sambandi eins og ég gat um í svarinu við fyrstu spurningunni.

Í þriðja lagi er spurt: Hversu margir þessara valla eru með bundnu slitlagi og hversu margir án þess? Svarið er á þessa leið: Fjórtán þessara flugvalla eru með bundnu slitlagi, þar af þrír með malbiki en ellefu með klæðningu, sjö eru malarflugvellir.

Í fjórða lagi er spurt um viðhald þessara valla, hvernig því sé sinnt. Vinnuhópur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, sem áður var, Tryggingastofnunar ríkisins og Flugmálastjórnar Íslands, sem skilaði niðurstöðum í janúar 2006, lagði til að flugvellirnir sem um ræðir yrðu til reiðu fyrir sjúkraflug og þá er ég að vísa í þennan 21 flugvöll sem fullnægði þeim skilyrðum að geta sinnt sjúkraflugi. Taka verður fram að vænta má að einhverjir flugvallanna hafi með tímanum misst vægi sitt sem sjúkraflugvellir vegna bættra vegasamgangna, t.d. Siglufjörður vegna Héðinsfjarðarganga og Kópasker og Raufarhöfn vegna Hófaskarðsleiðar. Hópurinn lagði til á sínum tíma umfangsmeiri þjónustu en síðar varð vegna þess að fé skorti til að gera þær að raunveruleika. Við val á flugvöllum og lendingarstöðum til sjúkraflugs höfðu fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins m.a. til hliðsjónar vegasamband og reynslu liðinna ára. Haft var samráð við héraðslækna og stjórnendur sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á landsbyggðinni. Fé til viðhalds flugvallanna er ákveðið í samgönguáætlun eins og hún er á hverjum tíma og verkefnum forgangsraðað miðað við það.

Þetta er hið almenna svar. Síðan er ég með lista yfir þessa flugvelli, 21 talsins, þar sem ítarlega er getið um á hvaða tímum þeir eru opnir og hvort um er að ræða sumar- og vetrarþjónustu og mun ég að lokinni þessari umræðu afhenda hv. þingmanni þennan lista í stað þess að lesa hann upp lið fyrir lið.