140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

fjármálalæsi.

153. mál
[16:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tel afar brýnt að kenna ungu fólki fjármálalæsi, að það þekki gildi þess að leggja fyrir og spara og sýna aðgát í fjármálum. Hins vegar er hér við ramman reip að draga þar sem þetta unga fólk horfir á ættingja sína og vini þeirra, fullorðna fólkið, krefjast þess að skuldir þeirra séu felldar niður. Unga fólkið sér að því fólki sem sýnir aðgát er ekki hjálpað, það hlustar á það í fréttum að við það að spara breytist menn í fjármagnseigendur sem séu skattlagðir aftur og aftur og enn og betur, að það er ekki trygging fyrir því að sparifé sé greitt, það er engin innstæðutrygging og engin ríkisábyrgð. Hér er því við ramman reip að draga í ljósi þess hvaða stjórnmálaflokkar eru nú við stjórnvölinn.