140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

Náttúruminjasafn Íslands.

325. mál
[16:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem hefur einmitt verið mjög ötull talsmaður Náttúruminjasafnsins á undanförnum árum.

Hv. þingmaður spyr hvort gripirnir séu aðgengilegir og til sýnis eins og lög gera ráð fyrir. Ef ég vitna í lögin frá árinu 2007, sem raunar voru sett fyrir minn tíma hér á þingi, og vitna aðeins í forsöguna eins og mér hefur skilist að hún hafi verið þá voru að sjálfsögðu sett ný lög um nýtt höfuðsafn á sviði náttúruminja sem eiga að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd auk samspils manns og náttúru og náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi. Þá segir einnig í þessum lögum að safnið skuli afla upplýsinga sem veita yfirlit yfir náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda innan lands og utan og annast kynningu með sýningum og annarri fræðslustarfsemi með það að markmiði að veita sem víðtækasta sýn á íslenska náttúru, safnið skuli jafnframt miðla fræðslu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings. Markmiðin voru því sett.

Það var hins vegar ljóst strax og lögin voru samþykkt, má segja, að ekki yrði hægt að ráðast í viðunandi safnbyggingu fyrir Náttúruminjasafn Íslands fyrr en að nokkrum árum liðnum. Ég tek það fram að þetta er sagan eins og ég hef lært hana, þ.e. að málið hefði ekki eingöngu snúist um efnahagshrunið heldur hefði legið fyrir að þessi bygging mundi ekki rísa strax, nauðsynlegt væri að vinna að stefnumótun fyrir starfsemi safnsins, þarfagreiningu vegna rýmis, bæði vegna sýninga og innra starfs, þar með talið geymslumála, taka ákvarðanir um miðlunartækni og nálgun við þau verkefni sem felast í ofangreindum lagaákvæðum. Hrunið sem varð síðan hér 2008 hefur auðvitað ekki bætt þessa stöðu, svo að ég haldi því til haga.

Á þessum tíma hefur Náttúruminjasafn Íslands unnið að stefnumótun fyrir starfsemi sína sem enn hefur ekki verið staðfest endanlega og hafið söfnun gripa í nokkrum flokkum náttúruminja. Þeir safnkostir munu auðvitað nýtast safninu til sýninga.

Eins og hv. þingmaður benti á er kveðið á um það í 2. gr. laganna að vísindastofnun Náttúrufræðistofnunar skuli vera undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins. Hins vegar liggur fyrir að allir þessir gripir munu að sjálfsögðu aldrei verða aðgengilegir, það þekkjum við frá öðrum höfuðsöfnum að þar er aðeins lítið hlutfall gripa aðgengilegt, hvort sem við lítum til Listasafnsins eða Þjóðminjasafnsins, og staða Náttúruminjasafnsins er sú að það er í bráðabirgðahúsnæði þar sem það hefur aðgang að litlu sýningarrými en getur að sjálfsögðu miðlað efni með öðrum hætti, til að mynda með því að nýta heimasíðu sína til kynningar efnis. Við sjáum það ef við horfum til þróunar safnamála um allan heim að svokölluð sýndarsöfn eru orðin æ meira áberandi í starfsemi safna sem eru þá aðgengileg óháð landfræðilegum takmörkunum, þ.e. aðgengileg á netinu.

Ég veit til þess að nú er í undirbúningi af hálfu safnsins sýning í núverandi húsnæði þess sem verður einkum ætluð yngra skólafólki til að kynna ýmsa grunnþætti náttúruvísindanna og má kannski segja að mjór sé mikils vísir og þar verði upphaf að sýningarhaldi í raunheiminum hjá Náttúruminjasafninu.

Hv. þingmaður nefndi svo húsnæðismálin og spurði sérstaklega um starfshópinn. Starfshópurinn sem skipaður var í september 2008 fékk fyrst og fremst það verkefni að skoða fýsileika þess að staðsetja safnið í Laugardal. Einungis var einn fundur haldinn í byrjun október 2008. Eftir að ég fjallaði um málefnin hér á þingi og talaði um að við mundum endurvekja þennan starfshóp ræddi ég við fulltrúa í þessum starfshópi og mat þeirra var að það væri ekki rétt að taka neinar framtíðarákvarðanir að svo stöddu, betra væri að finna bráðabirgðalausn. Það stafaði í raun og veru af því að meðan við hefðum ekkert fé fast í hendi til þess að ráðast í framtíðaruppbyggingu væri betra að horfa til bráðabirgðalausnar. Sú vinna leiddi til þess að safninu var sem sagt fundið húsnæði til bráðabirgða í loftskeytastöðinni svokölluðu skömmu eftir að við hv. þingmaður áttum þetta samtal á þingi.

Hins vegar lít ég ekki svo á að vinnu við að finna framtíðarhúsnæði fyrir safnið sé lokið. Ég vil taka það fram að síðan hef ég tekið á móti ýmsum fulltrúum þeirra sem hafa hugmyndir um hvar safnið ætti að vera staðsett. Þeir sem til að mynda kynntu upphaflega hugmyndir um að safnið yrði sett í Laugardal hafa líka rætt þá hugmynd við mig að byggja það nálægt höfninni. Urriðaholtsmenn, sem hafa staðið fyrir byggingu Nattúrufræðistofnunar í Garðabæ, hafa líka kynnt hugmyndir um viðbyggingu fyrir Náttúruminjasafn á þeim slóðum. Það eru því ýmsar umræður í gangi um þetta, en það var sem sagt mat þeirra sem höfðu verið í þessum málum fram að þessum tíma að það væri réttara að finna safninu bráðabirgðahúsnæði til næstu fimm ára og hefja vinnu þegar við hefðum aukið fjármagn í hendi.

Hv. þingmaður spyr einnig um samastað í húsnæði sem fyrir er og ég ætla að fá að ræða það á eftir í seinna svari mínu.