140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

Náttúruminjasafn Íslands.

325. mál
[16:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég fagna því sérstaklega að heyra þann tón sem kemur frá hæstv. menntamálaráðherra. Ég lít svo á að hún ætli að halda áfram því skipulagi og þeirri stefnu að koma hér upp náttúruminjasafni. Það lá alveg ljóst fyrir þegar lögin voru samþykkt 2007, minnir mig að það hafi verið, að það tæki langan tíma að koma upp náttúruminjasafni. Það kostar mikinn pening en fyrst og fremst þarf að liggja fyrir skýr stefnumörkun um hvernig safni við ætlum að koma upp, og það er fínt að unnið sé að því.

Það verður líka að segjast eins og er að það er ákveðin togstreita innan kerfisins um að koma upp náttúruminjasafni. Það er ekkert endilega á ábyrgð ráðherra heldur miklu frekar innan kerfisins, ráðuneyta og stofnana, sem leiðir til þess að menn hafa ekki jafnskýra sýn varðandi málefni Náttúruminjasafnsins og væri ákjósanlegt.

Ég fagna því sérstaklega að við ætlum okkur vonandi innan skamms að koma upp náttúruminjasafni. Hvar það verður (Forseti hringir.) mun tíminn bara leiða í ljós og menn munu vega og meta alla kosti sem bjóðast. Það er ekkert óeðlilegt að menn setji fram kröfur um að það verði í höfuðborginni en ég tel að menn eigi ekki að útiloka stórhöfuðborgarsvæðið.