140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

Náttúruminjasafn Íslands.

325. mál
[16:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum. Ég vil fyrst taka fram að þegar ég ræði um sýndarsafn á ég að sjálfsögðu ekki bara við einhverja heimasíðu. Ég held að við megum ekki vanmeta tæknina við það hvernig við miðlum safngripum okkar og efni. Ég held stundum að við séum of bundin af því að horfa eingöngu á húsnæði, það eru líka aðrar leiðir til miðlunar þannig að ég haldi því til haga hér.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni og ég get tekið undir það með henni að þessi mál eru ekki í nægilega góðum farvegi. Niðurstaðan varð hins vegar sú í tengslum við umræðuna þegar við ræddum þessi mál síðast, sem hefur væntanlega verið fyrir rétt um tveimur árum, að við horfðum til þess hvort eitthvert fýsilegt húsnæði væri til fyrir. Þjóðmenningarhúsið var nefnt og það var skoðað. Þjóðmenningarhúsið er hins vegar friðað og við töldum ekki að það væri fýsilegur kostur fyrir náttúruminjasafn sem gæti verið nútímalegt og komið til móts við þarfir skólabarna, almennings og ferðamanna. Við töldum að það væri heppilegra fyrir hefðbundnari sýningar. Núna hefur til að mynda Listasafnið opnað þar áfanga af sýningu á eldri myndverkum sem við töldum henta betur fyrir það húsnæði. Aðrir möguleikar voru einnig skoðaðir.

Við völdum að fara í bráðabirgðahúsnæði til fimm ára af því að við litum á það sem lokafrest, getum við sagt, á því að koma með einhverja framtíðarlausn. Nú liggur auðvitað fyrir að margar byggingar hafa ekki enn verið byggðar, ég get nefnt hús Íslenskra fræða og fleiri byggingar sem bíða. En mitt mat á þessum tímapunkti er alla vega, eftir að hafa farið yfir það húsnæði sem við skoðuðum og var á í boði sem framtíðarhúsnæði, að það yrði hugsanlega ekkert síður kostnaðarsamt að breyta og bæta slíkt húsnæði en að byggja viðunandi húsnæði fyrir safnið sem væri þá nýtt og sérsniðið að þörfum slíks safns.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir brýninguna. Við þurfum að sjálfsögðu að fara að nýju í gang með að horfa hvert við ætlum að stefna til framtíðar og þegar jafnvægi kemst á í ríkisfjármálum verða forsendur betri fyrir áætlanagerð fyrir nýbyggingar en verið hefur.