140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

starfsskilyrði í æskulýðsstarfi.

326. mál
[17:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Já, ég get tekið undir með hv. þingmanni að þó að málin líti út fyrir að vera almennt í nokkuð góðu lagi þá viljum við auðvitað helst ekki sjá nein tilvik koma upp þar sem ekki er fylgt þessum lögum og reglum og ekki er brugðist við með viðeigandi hætti. Þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvægt mál. Ekki síst er hugsunin á bak við það að kalla eftir upplýsingum um viðbragðsáætlanir, það er í raun og veru eftirfylgni á fræðsluna, þ.e. kanna hvort brugðist hafi verið við fræðslunni með því að félögin setji sér sínar eigin áætlanir.

Ég veit til þess að íþróttafélög hafa tekið þátt í fræðslustarfinu. En hvort einhverjum hafi verið vísað úr starfi á grundvelli 10. gr. þekki ég ekki, en ég get að sjálfsögðu aflað mér upplýsinga um það og mun gera það í framhaldi af þessu.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni. Frítímastarf, hvort sem er á vettvangi skólanna, í gegnum frístundaheimili, í gegnum æskulýðsfélög eða íþróttafélög, við eigum að sjálfsögðu að hafa sömu viðmið og reglur í þeim efnum og þessi fræðsla hefur átt við alla þessa hópa, þeir hafa allir komið að henni. En það liggur fyrir núna að við eigum eftir að vinna úr þeim upplýsingum sem við erum að fá um viðbragðsáætlanir og þá verður að sjálfsögðu brugðist við því með viðeigandi hætti.