140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ferðaþjónusta er fjórða stoðin í útflutningshagkerfi okkar en hún hefur hingað til búið við lága arðsemi, miklar sveiflur og erfitt fjárfestingarumhverfi. Nú eru hins vegar jákvæð teikn á lofti. Í Morgunblaðinu í morgun er sagt frá því að útlit sé fyrir að margir erlendir ferðamenn muni fagna nýju ári á Íslandi og að öll stóru hótelin í Reykjavík séu uppbókuð.

Þá greindu forsvarsmenn Iceland Airwaves frá því fyrir helgina að hátíðinni hafi verið seinkað um tvær vikur en upphaflega var markmið hátíðarinnar að fá ferðamenn til Reykjavíkur, en árið 1999, þegar hátíðin var sett á stofn, var lítið að gerast í Reykjavík. Nú er Reykjavík hins vegar orðin vinsæll áfangastaður og nóg að gera í ferðaþjónustunni á þessum tíma. Þess vegna hefur hátíðin verið flutt til svo nemur tveimur vikum. Horft er til þess að dreifa ferðamönnum meira um árið en ekki síður að dreifa þeim víðar um landið. Það leiðir hugann að Grímsstöðum á Fjöllum.

Við höfum áður rætt það í þessum sal að það er mikilvægt að við náum að sætta ólík sjónarmið sem togast á í þessu máli en eftir fund atvinnuveganefndar í morgun er ég vongóður um að hægt sé að finna lausn sem hentar öllum sem koma að málinu, seljendum, kaupanda og hinu opinbera. Ég held að það sé mikilvægt að ná lendingu í málinu, fá fjárfestingu í ferðaþjónustunni og þá sérstaklega á Norðausturlandi. Við hljótum að vilja skoða þau sjónarmið sem áður hafa verið reifuð og tengjast því að kannski er umrætt landsvæði of stórt. Þá er það spurningin hvort kaupa þurfi svo stórt landsvæði, hvort ekki megi leigja það.

Ég vil ljúka máli mínu með því að hvetja hið opinbera, framkvæmdarvaldið og þá sérstaklega iðnaðarráðherra sem sér um fjárfestingarmál og ferðaþjónustuna, að freista þess að ná lendingu í málinu svo við getum stuðlað að frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu og þá sérstaklega á þessu svæði.