140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær svaraði hæstv. fjármálaráðherra fyrirspurn hv. þm. Birgis Ármannssonar um hugmyndir um að gera uppstokkun á ríkisstjórninni á því sviði sem lyti að yfirstjórn efnahagsmála. Það var vegna umræðna sem um þessi mál voru nú um helgina sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tók þátt í.

Hæstv. fjármálaráðherra svaraði þessu þannig, með leyfi virðulegs forseta:

„Hvernig sem þessu verður fundinn staður innan stjórnarráðsins til frambúðar á yfirstjórn efnahagsmála að vera samræmd á einum stað …“

Þetta er skýrt svo langt sem það nær en þó er nauðsynlegt að frekar verði upplýst hvaða hugmyndir eru á ferðinni. Við skulum ekki gleyma því að í upphafi þessa kjörtímabils var tekin ákvörðun um að færa mál á sviði efnahagsstjórnar frá forsætisráðuneytinu í efnahags- og viðskiptaráðuneytið til að styrkja það ráðuneyti. Hæstv. fjármálaráðherra segir að reynslan af því að hafa yfirstjórnina dreifða í þremur ráðuneytum hafi verið slæm.

Nú vaknar þessi spurning: Er reynsla ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjármálaráðherra vond af því fyrirkomulagi sem er við lýði núna og var gert með því að styrkja efnahags- og viðskiptaráðuneytið, þannig að gera þurfi á því breytingar? Hvaða hugmyndir eru þá uppi varðandi það? Er hugmyndin sú að færa Hagstofuna undir eitt ráðuneyti? Er hugmyndin sú að færa alla efnahagsstjórnina undir fjármálaráðuneytið?

Ég vek athygli á því að þegar þessi ákvörðun var tekin á sínum tíma í upphafi kjörtímabilsins var líka tekin ákvörðun af hálfu hæstv. forsætisráðherra um að ráða þangað sérstakan efnahagsráðgjafa. Er það þá þetta sem við eigum að horfa upp á, að gerðar verði einhverjar slíkar breytingar og síðan ráði einstakir ráðherrar til sín efnahagsráðgjafa til að geta fylgst með? Það er dæmi um það sem við vöruðum við þegar stjórnarráðslögin voru samþykkt síðasta haust, við sögðum að það mundi leiða til lausungar og það er greinilega að koma á daginn.