140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:15]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar við þingmenn fjöllum um fjárlög koma tölur upp í hugann en auðvitað ætti það að vera svo að fólk komi fyrst og fremst upp í hugann þegar fjárlög eru annars vegar. Því er á þetta minnst að nýverið fékk ég svar við fyrirspurn minni um fæðingarþjónustu hér á landi og aðgengi kvenna að fæðingarþjónustu. Mér þykir þetta eftirtektarvert svar í ljósi fjárlaga þar sem við höfum þurft að glíma mjög verulega við niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni.

Fæðingarþjónusta á undanförnum tíu árum hefur verið aflögð á Húsavík, Sauðárkróki, Egilsstöðum, Blönduósi, Siglufirði, Stykkishólmi, Patreksfirði og er að leggjast af á Höfn í Hornafirði. Fæðingarþjónusta er núna á fjórum stöðum á suðvestursvæðinu og á fjórum stöðum úti á landi innan 50 kílómetra radíuss. Lengsta leið fyrir konu að fara á fæðingardeild er 250 kílómetrar, frá Þórshöfn til Akureyrar. Það er álíka og reykvískar konur þyrftu að fara til Blönduóss til að fæða börnin sín.

Því er á þetta minnst að við þurfum að skoða þjónustusvæði þegar kemur að opinberri þjónustu. Við getum ekki látið það vera svo að opinber þjónusta sé í fyrstu deild á sumum svæðum en í annarri deild á öðrum svæðum. Það hljóta að vera takmörk fyrir því hvað konur á Íslandi, í þessu ríka landi, þurfa að fara langan veg til að sækja jafnaugljósa grunnþjónustu og að fæða börn. 250 kílómetra löng leið er að mínu mati, ég er að vísu bara karl, of löng.