140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp vegna orða hv. þm. Illuga Gunnarssonar þar sem hann fór yfir afstöðu Alþýðusambands Íslands vegna þeirra fjárlaga sem við munum vonandi samþykkja á morgun í þinginu.

Ég vil fyrst nefna að framfærslu- og jöfnunarkerfin eru lykiltæki jafnaðarmanna til að ná fram jöfnuði á Íslandi. Samhliða því sem við höfum varið þessi kerfi höfum við gert skattkerfisbreytingar þar sem skattbyrðin hefur verið gerð léttari á þá tekjulægri og þyngri þar með á þá tekjuhærri. Útgjöld vegna bótakerfisins, almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga, munu á næsta ári verða 86 milljarðar fyrir ríkissjóð. Það fara 18% af skatttekjum ríkissjóðs í bótaflokkana almannatryggingar og atvinnuleysisbætur. Þá eru ekki undir fæðingarorlof, barnabætur og vaxtabætur sem eru um 7,3% af útgjöldum ríkissjóðs.

Með því að greiða 8 milljarða kr. í bótakerfin í sumar var jafnframt hægt á aðlögunarferlinu. Þegar hæstv. velferðarráðherra boðaði 8,1% hækkun í bótakerfunum kom jafnframt skýrt fram í máli hans við Alþýðusamband Íslands, ÖBÍ og Þroskahjálp að hækkunin á árinu 2012 yrði 3,5% í samræmi við kjarasamninga enda hefði ríkissjóður ekki svigrúm til frekari hækkana.