140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni og vara eindregið við því að skautað verði af léttúð yfir yfirlýsingar forustumanna ASÍ vegna forsendna kjarasamninga. Ég trúi því ekki að öllu óbreyttu að hv. fjárlaganefnd ætli ekki að funda til að mynda með hæstv. fjármálaráðherra um þetta. Við megum ekki láta hina augljósu andúð eða kergju hæstv. fjármálaráðherra í garð forustumanna ASÍ verða til þess að enn frekari óvissa verði í efnahagsmálum. Ég trúi því ekki að menn ætli að afgreiða fjárlög á morgun án þess að hafa rætt við forustumenn ASÍ. Ég skora á hv. fjárlaganefnd að gera það.

Ég kvaddi mér hljóðs vegna annars máls sem tengist háskólanum og því akademíska frelsi sem starfsmenn hans hafa búið við og eiga að búa við um ókomna tíð. Ég hélt að samhljómur væri meðal þingmanna um að stuðla að því að háskólarnir gætu unnið í samræmi við það að hafa akademískt frelsi. Mín skoðun er sú, eftir atburði tengda Vantrú en líka öðrum aðilum, að það sé réttmæt ástæða fyrir okkur í allsherjar- og menntamálanefnd að ræða umhverfi háskólanna eins og það er í dag og hvort lagaumhverfið sé nægilega sterkt til að þeir geti staðið undir þessu akademíska frelsi.

Ég tel að við verðum meðal annars að taka til skoðunar aðkomu fyrirtækja að háskólanum. Við þurfum að taka til skoðunar hvort Alþingi eigi að hafa skoðanir á prófessorsstöðum og samþykkja þingsályktunartillögur um hvar þær eigi að vera, hvernig þær eigi að vera uppbyggðar og í hvers nafni. Ég tel að ástæða sé fyrir okkur í allsherjar- og menntamálanefnd að tala við forsvarsmenn háskólastigsins og stuðla að því að þeir geti staðið vörð um akademískt frelsi. Það þýðir hins vegar ekki að háskólarnir séu hafnir yfir alla gagnrýni. Guð forði okkur frá því. Við eigum auðvitað að hafa skoðanir á því hvernig háskólarnir byggjast upp en þeir verða að geta staðið vörð um hið akademíska frelsi og (Forseti hringir.) það er okkar í þinginu að sjá til þess að svo verði.