140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er af mörgu að taka í dag, mörg brýn málefni en eitt liggur fyrir. Hin fyrsta tæra vinstri stjórn í langan tíma þarf að fara frá. (Gripið fram í: Já.) Eini tilgangur hennar í dag fyrir áframhaldandi setu er í raun bara að halda lífinu í sjálfri sér. Við þurfum að hleypa miðjustefnunni að, mönnum sem þora og geta.

Það liggur fyrir að Vinstri grænir eru klofnir í Vinstri hreyfingu annars vegar og Grænt framboð hins vegar. En mig langar líka að gagnrýna þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa stutt ríkisstjórnina hvað dyggast í aðgerðum hennar en leyfa sér svo að koma hingað upp og gagnrýna til dæmis hvernig farið hefur verið með ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á því og þingmenn ríkisstjórnarinnar. Og það er ríkisstjórnin og meiri hlutinn sem er að skera niður í heilbrigðismálum. Það hlýtur þá sérstaklega að vera á ábyrgð þingmanna sem sitja í fjárlaganefnd. Hér ræddi hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson um skerðingu á fæðingarþjónustu víðs vegar um landið. Hún er bein afleiðing af niðurskurði í fjárlögum sem hann samþykkir og stendur fyrir sem varavaraformaður fjárlaganefndar. Kannski vita þeir ekki hver munurinn er á því sem hægri höndin gerir þegar þeir ýta á já-takkann og það sem vinstri höndin vildi gera.

Virðulegi forseti. Tölum bara hreint út. Vinstri ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna þarf að fara frá, það þarf að lina þjáningar þjóðarinnar.