140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni og ég vona að hv. þingmenn stjórnarliðsins átti sig á því hversu alvarlegir hlutir eru hér í gangi. Ég vona að menn ætli ekki að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Farið hefur verið yfir það að kjarasamningar eru hugsanlega í uppnámi og búið er að funda um það í bakherbergjum, en hv. fjárlaganefnd fær ekki að vita nokkurn skapaðan hlut. Ég vek athygli á því að ekki er búið að komast að niðurstöðu varðandi skattamálin, skattamál fjárlaga, og menn ætla bara að láta eins og ekkert hafi í skorist, klára umræðuna á eftir og greiða svo atkvæði á morgun. Ég vek athygli á því að samkvæmt þingsköpum á hv. fjárlaganefnd að gefa hv. efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um skattaþátt fjárlaganna. Er hún komin? Nei. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd er ekki búin að fjalla um þann þátt.

Hér kemur þingmaður eftir þingmann, stjórnarliðar, og útskýrir stjórnleysi í heilbrigðismálum. Það eru aðallega stjórnarliðar sem fara yfir það. (Gripið fram í.) Ég vona að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson skilji sjálfur um hvað hann er að tala.

Komið hefur fram í umræðum að hæstv. fjármálaráðherra telur að það hafi verið fullkomið óráð að hafa ekki öll efnahagsmálin á einni hendi. Búið er að fara í hvern ráðherrakaflann á fætur öðrum og hræra í stjórnkerfinu fram og til baka og nú kemur hæstv. ráðherra og segir: Þetta var allt saman óráð, (Forseti hringir.) og ætlar að hafa allt á einni hendi. Ég held (Forseti hringir.) að þingið þurfi að taka til sinna ráða og stoppa þessa vitleysu.