140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fundarstjórn.

[11:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Forseti verður að treysta þingmönnum sínum sem hafa stutt hana í forsetastóli þannig að við ræðum um fundarstjórn forseta og það er einmitt það sem ég ætla að gera núna. Komið hefur fram réttmæt krafa af hálfu sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd um að boðað verði til fundar í fjárlaganefnd og ekki farið eftir dagskrá fundarins í dag varðandi fjárlaganefnd. Þriðja umræða fjárlaga á að fara fram á eftir og ég hvet forseta til að taka til skoðunar beiðni okkar sjálfstæðismanna til að fjárlaganefndin geti fundað til að mynda með hæstv. fjármálaráðherra um þær alvarlegu yfirlýsingar sem forustumenn ASÍ hafa gefið um forsendur kjarasamninga sem hugsanlega kunna að bresta ef af samþykkt fjárlagafrumvarpsins verður á morgun. Ég hvet forseta til að endurskoða dagskrá þingsins í dag, gefa svigrúm fyrir fjárlaganefnd til að ræða sérstaklega yfirlýsingar forustumanna ASÍ.