140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fundarstjórn.

[11:37]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Ég vil líka beina því til virðulegs forseta að það er í raun ekki hægt að taka 3. umr. fjárlaga á dagskrá í dag af því að ekki hefur enn þá verið farið að þingsköpum hvað varðar fjárlagafrumvarpið. Ég spyr virðulegan forseta í ljósi þess að við höfum nýverið samþykkt ný þingsköp hvernig túlka beri 13. gr. þingskapa þar sem segir skýrum orðum að tekjugrein fjárlaga skuli njóta umsagnar hv. fjárlaganefndar til efnahags- og viðskiptanefndar áður en frumvarpið er afgreitt.

Hvernig getur það verið, virðulegi forseti, að samþykkt sé að taka málið á dagskrá sem fyrir liggur þegar hv. fjárlaganefnd hefur í engu sinnt lögbundnu hlutverki sínu eins og það birtist í 13. gr.? Enn hefur efnahags- og viðskiptanefnd ekki gefið umsögn um málið. Allur tekjuliðurinn er enn í efnahags- og viðskiptanefnd og þingmönnum er ætlað að taka grundvallarmál þingsins til umræðu með jústeruðum og tilbúnum tölum frá hv. fjárlaganefnd.