140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fundarstjórn.

[11:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Það er kannski rétt að byrja á því að hressa upp á minni hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar og minna á að þingskapabreytingarnar sem samþykktar voru, voru samþykktar af þingmönnum fleiri flokka en stjórnarflokkanna, m.a. þingflokki hv. þingmanns, en það er svo annað mál.

Ég tel að menn séu aðeins úti á túni í þessari umræðu. Hér er sagt að senda eigi umsögn frá fjárlaganefnd til efnahags- og viðskiptanefndar sem aftur sendi umsögn til fjárlaganefndar. Málið er ekki þannig vaxið.

Svo vil ég líka segja að það er alveg ótrúlegt að hlusta á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem stýrt hafa þinginu og ríkisfjármálavinnunni árum og áratugum saman, það hefur iðulega verið þannig að fjárlög eru afgreidd fyrst og síðan svokölluð tekjuöflunarfrumvörp og koma úr efnahags- og viðskiptanefnd. (Gripið fram í.) Þá skulum við ræða hvort breyta eigi því vinnulagi og það gerum við í þingskapanefnd. Það getur vel verið að við getum orðið samstiga um það. En þetta er það (Forseti hringir.) vinnulag sem viðhaft hefur verið. Fjárlaganefnd á að senda efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um tekjuhlið þeirra þingmála sem eru hjá efnahags- og viðskiptanefnd og það er ekki fjárlagafrumvarpið, það er í fjárlaganefnd.