140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

forsendur fjárlaga og þingskjöl.

[11:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því hversu skynsamlegt það er fyrir okkur að draga andann djúpt og fara að þessum hógværu beiðnum sem ganga út á að fara yfir málið, m.a. að kanna það hvað umræddur lagatexti þýðir. En hingað kemur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og túlkar það með allt öðrum hætti en eftir orðanna hljóðan. Er ekki sjálfsagt að fara yfir það?

Varðandi tekjuhliðina vil ég vekja athygli á því að í gær fékk ég póst eins og aðrir nefndarmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þar sem fram kom hugmynd um algerlega breyttan fjársýsluskatt. Við höfum ekki sest niður til að fara yfir það. Ég held að það sé fullkomlega augljóst að ef við ætlum að sýna ábyrgð, af því að vísað var til þess, ættum við að draga andann djúpt og hinkra aðeins við áður en við gerum eitthvað sem engum er til sóma, allra síst Alþingi Íslendinga.