140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

forsendur fjárlaga og þingskjöl.

[11:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég frábið mér að formaður fjárlaganefndar komi hingað upp og tali um pólitíska leiki. Verið er að leggja fram málefnalega gagnrýni á það sem gert hefur verið innan fjárlaganefndar. Ef það er ekki nýtt sem formaður ASÍ segir um fjárlögin, ekki almennt um efnahagsástandið heldur beinlínis um fjárlögin, að fjárlögin sem ætlunin er að afgreiða muni ógna forsendum kjarasamninga, þá veit ég ekki hvað er nýtt. Það er ástæða fyrir fjárlaganefndina að verða við kröfu okkar sjálfstæðismanna um að koma saman og fara yfir það sem sagt hefur verið varðandi fjárlagagerðina alla.

Mér finnst það mjög skynsamleg tillaga sem kom fram frá þingflokksformanni sjálfstæðismanna, þ.e. að til að greiða fyrir þingstörfum verði stjórnarmál tekin á dagskrá þannig að dagurinn fari ekki til spillis heldur geti ráðherrar komið upp og mælt fyrir stjórnarfrumvörpum sínum og fjárlaganefnd geti á meðan farið málefnalega yfir þær athugasemdir sem forsvarsmenn atvinnulífsins hafa sett fram á síðustu dögum.