140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

forsendur fjárlaga og þingskjöl.

[12:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er nú nokkuð tregur til að blanda mér í þessa umræðu en tek undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að hér hefur mikill tími farið í súginn að ástæðulausu, en það er það eina sem ég deili með henni miðað við það sem hún hefur flutt fram hér.

Unnið er að þessum málum algerlega í samræmi við þinghefðina. Þetta er nær því að vera reglan en undantekningin að eftir er afgreiðsla og lokafrágangur á einhverjum tekjuöflunarfrumvörpum þegar fjárlög lokast. Þeir sem vilja kynna sér það ættu að eiga auðvelt með að gera það.

Ég tel það lofsvert að hér sé staðið við starfsáætlun. Umræðan fer fram á þeim degi sem starfsáætlun segir til um. Það er lofsvert að fjárlaganefnd hefur unnið vel og skipulega að málum sínum þannig að við höldum starfsáætlun. Um hvað eru hv. þingmenn að tala?

Svo segi ég það bara að mér finnst það vera fyrir neðan allar hellur að við skulum þurfa að sitja hér og hlusta á það að einn hv. þingmaður og það af öllum hv. þm. Vigdís Hauksdóttir (Gripið fram í.) kenni forseta Alþingis (Forseti hringir.) alfarið um þann brag sem er á þingstörfunum. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Það er ómaklegt að kenna forseta Alþingis einum um það, það er (Forseti hringir.) algerlega ómaklegt. (Gripið fram í.)