140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (frh.):

Forseti. Ég vona að við höfum öll átt ágætis matarhlé. Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem ég lendi í því að vera stöðvaður í ræðu um fjárlög en það er ágætt að fá aukna orku úr ágætu mötuneyti Alþingis.

Ég var kominn þar í ræðu minni þar sem ég fjallaði um heilbrigðismálin og þær tillögur sem hafa legið fyrir og vinnslu þeirra af hálfu meiri hluta Alþingis. Ég vil nefna það að 1. minni hluti fjárlaganefndar, sem skipaður er fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, hefur lagt fram tillögur í heilbrigðismálum um fjárveitingu til heilbrigðisstofnana, spítala, öldrunarþjónustu og einnig til SÁÁ. Tillögur okkar lúta að því að fjárlög ársins 2011 verði látin gilda í fjárlögum ársins 2012, með verðlagsuppfærslum og öðru því um líku. Fjárveitingar til þessara stofnana verði þær sömu að verðgildi og þær voru í fjárlögum ársins 2011. Starfsmenn, sjúklingar, vistmenn á öldrunarheimilum og aðrir þeir sem nýta og vinna við þessar stofnanir hafa framkvæmt vilja Alþingis varðandi fjárveitingar á árinu 2011, þekkja þann ramma sem þar er dreginn og tillaga okkar gengur út á að sá veruleiki verði framlengdur. Með því geta menn skapað sér hlé og tíma til tveggja ára og á meðan er unnt að búa til og endurgera þá heilbrigðisþjónustu sem vilji er til að veita.

Eins og þetta liggur hér núna fyrir, þriðju fjárlögin í röð, er verið að taka ákvarðanir til eins árs í heilbrigðisþjónustu landsins. Þetta er ekki byggt á neinni langtímasýn og að okkar mati er óviðunandi að vinna þannig á sviði heilbrigðismála og öldrunarmála. Við eigum ekki að búa þannig um hnútana að við sjáum ekki lengra fram í tímann en tólf mánuði í þessum málaflokkum. Jafnvel má færa rök að því að við höfum ekki einu sinni tólf mánaða sýn á grunni þeirra tillagna sem hér liggja fyrir. Það kom ágætlega fram í andsvörum mínum við hv. formann fjárlaganefndar fyrr á þessum fundi.

Það er ekki svo að með þessum tillögum okkar viljum við auka á hallann á ríkissjóði. Þvert á móti gerum við jafnframt tillögur um hvernig við sjáum þeim kostnaði mætt sem leiðir af þeim tillögum sem við leggjum til að fjárhæð 1.170 millj. kr. Þetta snýst að okkar mati um breytta forgangsröðun þess takmarkaða fjár sem úr er að spila. Ég geri mér fullljóst að um það ríkir ekki full samstaða en við fullyrðum að vel sé gerlegt að draga úr fargjöldum og dvalarkostnaði á vegum ráðuneyta og stofnana um 50 millj. kr. Það er ekki ofverk manna að gera það. Þarna liggur undir mörg hundruð milljón króna kostnaður og tillaga okkar gengur út á að draga hann saman um 50 millj. kr.

Við höfum áður rætt um aðstoðarmenn ráðherra en í þeim flokki er ætlað að verja til nýrra starfa tæplega 40 millj. kr. Það er spurning um forgangsröð hvernig menn vilja verja því fé. Einn aðstoðarmaður fer, ef ég man rétt, í forsætisráðuneytið og þar hefur verkum frekar fækkað frá því sem áður var. Við gerum tillögu um að því verði frestað að hefja uppbyggingu á nýju tollafgreiðslukerfi hjá tollstjóra ríkisins en áætlað er að það kosti í fyrsta áfanga 150 millj. kr. Við gerum tillögu um að fjárveiting til óbyggðanefndar, tæpar 30 millj. kr., verði felld niður. Hvernig ætlum við að standa að því? Það er mjög einfalt, óbyggðanefnd er ekki að störfum. Samt á að skammta til hennar 30 millj. kr. (Fjmrh.: Fylgja eftir málum.) Hér kallar hæstv. fjármálaráðherra fram að það þurfi að fylgja eftir málum. Af því tilefni vil ég segja að við spurðum fulltrúa forsætisráðuneytisins þegar þeir mættu til fundar við fjárlaganefnd hvers vegna þessi fjárveiting væri hér merkt. Svörin voru ekki þau að það væri til að fylgja eftir málum heldur vegna þess að þetta fólk yrði að vera til taks, með þá þekkingu sem það hefði í kollinum, þegar farið yrði að vinna í þessum málum. Að okkar mati er greinilega ekki sami skilningur að baki tillögunni hjá hæstv. fjármálaráðherra og hjá forsætisráðuneytinu. Það gefur þar af leiðandi enn ríkari ástæðu til að draga hana til baka.

Stærsti einstaki liðurinn sem hér er gerð tillaga um til lækkunar er óráðstafaður liður vegna fjármálaráðuneytisins upp á 650 millj. kr. lækkun. Þessi liður nemur um 4 milljörðum kr. ef ég man rétt í fjárlagatillögunni. Við höfum verið talsmenn þess að þessi liður væri fyrir hendi í fjárlögum, sérstaklega þegar glímt væri við það að kjarasamningar lægju ekki fyrir. Nú liggja fyrir helstu þættir þeirra og óvissan í ríkisrekstrinum á þar af leiðandi ekki að vera jafnmikil. Við teljum því fullt tilefni til að lækka þennan lið um þá fjárhæð sem hér greinir. Enn betra væri að gera tillögu í þessa veru ef fyrir lægju þær reglur sem fjárlaganefnd hefur verið heitið að verði settar og henni yrðu kynntar þær. Við höfum óskað eftir þessum reglum allt frá því að þær voru boðaðar í fjárlögum ársins 2010.

Á þennan veg eru tillögur okkar. Við leggjum með öðrum orðum til að Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri, allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar muni njóta þeirra fjárveitinga sem voru á árinu 2011 og ekki verði skorið niður heldur gefi menn sér nauðsynlegan tíma til að hagræða þessari þjónustu og búa til sameiginlegan skilning á þessu verki. Við höfum fengið skeyti víða að í fjárlaganefndinni og ég efast ekki um að aðrir þingmenn hafi sömuleiðis fengið skilaboð vítt af landinu. Þau beinast sérstaklega að tveimur mjög veikum stofnunum sem eru Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík og Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki. Ég verð að segja að starfsfólk þessara stofnana hefur sýnt aðdáunarvert þolgæði við þau erfiðu verkefni sem því hafa verið falin síðastliðin tvö, þrjú ár og aðdáunarvert hvernig það hefur þolað þær þrengingar sem það hefur gengið í gegnum.

En nú sér maður í þeim tillögum sem koma frá velferðarráðuneytinu til fjárlaganefndar að enn á að ganga á þessar stofnanir, sérstaklega á Húsavík. Þann litla afgang sem sú stofnun hefur nurlað saman á að rífa af henni og nýta til að standa undir að hluta þeirri gríðarlegu hagræðingarkröfu sem gerð er á þessa litlu stofnun. Það er þvert ofan í skrifleg fyrirheit sem ríkisstjórn Íslands hefur gefið sveitarfélögum á þessu svæði um að standa eigi vörð um opinber störf á þessu svæði. Þetta er enn eitt griðrofið, eins og ég vil kalla það, í samskiptum stjórnvalda við sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum.

Nýjasta dæmið um það þegar eitthvað er óljóst í samningum milli aðila eru samskiptin á milli ASÍ og stjórnvalda sem við urðum vitni að í gær og í morgun um samkomulag í tengslum við kjarasamningagerð. Á því hafa menn mismunandi skilning en fyrir norðan liggur þó fyrir nokkuð afdráttarlaus texti sem í raun er ekki hægt að skilja nema á einn veg. Mér þykir ekki stórmannlegt hvernig framganga stjórnvalda í þessum efnum hefur verið og ég verð að segja að þetta svæði er að verða langþreytt á henni.

Milli 2. og 3. umr. voru gerðar allnokkrar breytingar á fjárlagatillögunni. Áður lágu fyrir tillögur til breytinga sem stöfuðu mestan part frá ríkisstjórninni sjálfri upp á um 4 milljarða. Þegar maður lítur yfir þær tillögur sem hér greinir fyrir 3. umr. eru þær með ýmsum hætti. Helstu tíðindin eru kannski þau að við horfum upp á að fjárveitingavaldið gefst upp fyrir eftirlitsaðilunum sem er Fjármálaeftirlitið og ég held að flestum fjárlaganefndarmönnum þyki miður að það skuli hafa gerst, ég held að ég geti alveg leyft mér að tala með þeim hætti. Fulltrúar Fjármálaeftirlitsins mættu til fundar við fjárlaganefnd og báru fram ósk sína um fjárveitingar og kynntu það svo að skýr lagagrunnur væri fyrir því að þeir gætu borið upp þessa beiðni við þingið og við henni yrðu menn að verða. Það þykir mér mjög bratt. Starfsemi Fjármálaeftirlitsins hefur þanist út. Vissulega má segja að ríkur skilningur sé á því, og ekki skal ég undanskilja sjálfan mig í því, að það er gríðarlega mikilvægt að við höfum gott fjármálaeftirlit, hvað annað á að vera í boði í þeim efnum? Hins vegar er þetta stofnun sem býr við það að allur hennar kostnaður, bæði ytri og innri kostnaður, lendir á lántakendum að lokum og þinginu ber að sjálfsögðu að reyna að standa vörð um þá. Þessum kostnaði er velt yfir á fjármálafyrirtækin og þau gera ekkert annað en að velta honum yfir á þá sem eiga viðskipti við þau, hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Veruleikinn er sá að Fjármálaeftirlitið hefur þanist út í gjöldum, var með rúman milljarð árið 2010 í fjárlögum, er komið núna í tæpa 2 milljarða kr. Þeir búa ekki illa, þeir eru ekki í einhverju húsasundi með starfsemi sína. Þeir eru komnir í húsnæði í turninum við Borgartún, voru áður við Suðurlandsbraut. Á þessum tveimur stöðum er verulegur munur á leiguverði. Mér þykir þessi ráðstöfun sérstaklega undarleg, ekki síst í ljósi þeirra orða sem Fjármálaeftirlitið hefur látið hafa eftir sér, að ástæðan fyrir þessari fjárbeiðni sé kúfur í starfseminni sem muni vinnast tiltölulega hratt niður. Hvað rekur þá á eftir því að menn séu að flytja í þetta glæsihýsi? Var ekki hægt að leysa það á ódýrari hátt? Ef þetta væri ástæðan held ég að menn hefðu frekar einbeitt sér að því að finna framtíðarhúsnæði sem gerði ráð fyrir þeim samdrætti sem yrði eftir eitt eða tvö ár, það hefði verið eðlilegra að gera það.

Þetta dæmi af Fjármálaeftirlitinu finnst mér vera erkidæmi um að stofnanir sem byggja á sértekjum sem ekkert er hróflað við verða einhvers konar sjálftökustofnanir, þær telja sig geta gengið að því vísu að fá það fé sem þeim dettur í hug að þær þurfi að hafa til starfsemi sinnar. Ég ætla ekki að fara neitt frekar í þá umræðu en ég taldi nauðsynlegt að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, einfaldlega vegna þess hvernig umræðan síðustu dagana hefur verið um þennan þátt starfseminnar. Ég tel eðlilegt og gott hjá meiri hluta fjárlaganefndar að setja sér þau markmið að gera úttekt á starfsemi Fjármálaeftirlitsins með tilliti til þessa útgjaldavaxtar.

Af öðrum þáttum sem lúta að breytingartillögum meiri hlutans má nefna sérstaklega þá breytingu sem gerð er á sóknargjöldum. Ég tel hana vera mjög gott skref, sérstaklega í ljósi þess að sóknargjöldin höfðu, samkvæmt úttekt nefndar á vegum innanríkisráðuneytisins, hlotið skerðingu langt umfram allar aðrar fjárveitingar hjá ríkinu, 25% umfram þær fjárveitingar sem höfðu verið hvað mest skornar niður. Þetta er því sjálfsögð og eðlileg leiðrétting. Það ber að hafa í huga að ef hún ætti að koma að fullu til leiðréttingar hefði hún átt að hljóða upp á um 500 millj. kr. en hér er gerð tillaga um 90 millj. kr. og snertir verðbætur á þá fjárveitingu sem liggur fyrir í tillögum ríkisstjórnarinnar varðandi sóknargjöld.

Ég vil gera að sérstöku umtalsefni fjárveitingu til byggingar fangelsa. Þetta var vandræðamál í vinnslunni, fór inn og út í meðferð fjárlaganefndar. Nú liggur fyrir að fjárveiting upp á 190 millj. kr. er ætluð til hönnunar á gæsluvarðhalds-, móttöku- og kvennafangelsi á Hólmsheiði. Jafnframt er sett inn tillaga um 55 millj. kr. framlag vegna öryggismála á Litla-Hrauni. Það sem upp á vantar í mínum huga er að ekki er horft til enda máls í þessari tillögu. Ekkert liggur fyrir um það hvernig þessi bygging verður kostuð, heildarkostnaðurinn við verkið liggur ekki fyrir og því síður hvenær eigi að taka bygginguna í notkun vegna þess að ekki er búið að ákveða hversu miklu fé eigi að verja í þetta eða hvaðan eigi að taka það, hvort þetta verður ríkisframkvæmd eða einkaframkvæmd. Meðan sú ákvörðun er ekki tekin getur þingið ekki svarað því hvenær nýtt fangelsi kemur í notkun. Við höfum engin svör um það. Vilji þingsins er að bæta úr í fangelsismálum landsins en af því að engin tillaga frá stjórnarmeirihlutanum liggur fyrir um hvernig fjármagna eigi þessar úrbætur getum við ekki svarað því hvenær áætlað er að nýtt fangelsi komi í not, vegna þess að við eigum eftir að taka umræðuna um fjármögnun á því. Ég skil ekki hvers vegna hún er ekki tekin en sennilega er ástæðan sú að ef við förum að setja inn framkvæmdir upp á 2, 3, 4 milljarða, guð má vita hvað, ég veit það ekki, þá þarf að sjálfsögðu að gera ráð fyrir því í áætlun ríkisins og það mundi raska því sem við erum að reyna að vinna á, sem er stöðugur hallarekstur ríkissjóðs.

Ég fagna tillögu meiri hlutans um uppbyggingu á útkallskerfi í gegnum GSM-síma á hættusvæðum. Þessi tillaga kom fram í umræðunni í fjárlaganefnd og ég minni líka á umræðuna sem hv. formaður nefndarinnar tók upp við innanríkisráðuneytið sem laut að löggæslustörfum við Vík. Ég kýs í það minnsta að skilja þetta þannig að ríkur vilji sé til að bregðast við þeim sjónarmiðum sem þar komu upp og ég tel það raunar nauðsynlegt í ljósi þeirra atburða sem þarna hafa gerst og óróans á svæðinu. Þá er einfaldlega betra að vera betur búinn en vanbúinn ef eitthvað kann að gerast.

Ég vil sérstaklega nefna eitt dæmi hér sem lýtur að Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjárhagsmálum sveitarfélaga og snertir raunar breytingartillögu sem snýr að námskeiðskostnaði og atvinnuleysistryggingabótum. Það er alveg ljóst að með þeirri tillögu sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir um breytingar á atvinnuleysisbótum og framlagi í Atvinnuleysistryggingasjóð munu þeir einstaklingar sem fara inn í þetta úrræði detta út af atvinnuleysisskrá. Þetta kom út úr umræðu í fjárlaganefnd. Til viðbótar þessu vil ég nefna að þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hníga í svipaða átt. Þegar Samband sveitarfélaga ræddi við ríkisvaldið um fjármögnun vinnumarkaðsúrræða, fjárhagsaðstoðar og síðan aukaframlags í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga — sem er nú sérumræða — bentu fulltrúar Sambands sveitarfélaga á að nú þegar eru um tólf hundruð bótaþegar í félagsþjónustu sveitarfélaga og sá hópur er ekki mældur í atvinnuleysistölum þjóðarinnar. Lokaorð þeirra í erindi því sem þeir lögðu fram til fjárlaganefndar, dagsettu 1. desember síðastliðinn, eru þessi, með leyfi forseta:

„Það er ljóst að við það að annar hluti hins opinbera þjónustukerfis á Íslandi lækki útgjöld sín lækka ekki heildarútgjöld hins opinbera nema kostnaðarvaldurinn hverfi. Í því tilfelli sem hér um ræðir er það ekki svo nema að litlu leyti. Ríkið og Atvinnuleysistryggingasjóður hyggjast einfaldlega létta af sér útgjöldum með því að færa þau yfir á sveitarfélögin. Slíkt gengur ekki í þjóðfélagi sem kennir sig við norræna velferð, menn verða að horfa á heildarmyndina.“

Undir þessi orð tek ég heils hugar. Ég hef verulegar áhyggjur af því að sveitarfélögin eigi eftir að ganga í gegnum töluvert mikla erfiðleika við að veita þá lögbundnu þjónustu sem þeim er samkvæmt lögum ætlað að inna af hendi, ekki síst í ljósi þess að á milli sveitarfélaga og ríkisvaldsins hafa ekki farið fram neinar viðræður um þá gríðarlegu breytingu sem leiðir af þeirri stefnumörkun sem ríkisvaldið hefur tekið varðandi fjárframlög í það sem kallað er aukaframlag í Jöfnunarsjóð. Það er ljóst að lækkun á aukaframlaginu, úr þeim 1.200 millj. kr. sem sambandið metur þörf á, í 350 millj. kr. sem síðan falla burt, þýðir bara eitt. Fjárhagslega verst stöddu sveitarfélögin — og svo því sé haldið til haga eru þau ekkert öll smá, þetta eru ekki allt einhverjir örhreppir, af þessum 77 sveitarfélögum — munu að öllu óbreyttu lenda í enn meiri erfiðleikum við að fullnusta skuldbindingar sínar og halda úti lögbundnum verkefnum sem þeim er ætlað að sinna. Þetta er viðfangsefni sem opinber stjórnvöld, bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnin í umboði Alþingis, verða að ræða sem fyrst og finna einhverja aðra lausn en að skilja við þetta galopið eins og það er. Því eins og segir í erindi Sambands sveitarfélaga: Menn vinna ekkert á þessu eins og lagt er hér upp með nema að kostnaðarvaldurinn hverfi. Annað tveggja verður að sjá sveitarfélögunum fyrir auknum fjármunum eða fella niður af þeim lögbundin verkefni. Það er aðeins tvennt í stöðunni og það verður að vera sameiginleg ákvörðun aðila hvernig eigi að nálgast það.

Forseti. Áður en ég lýk máli mínu ætla ég að fjalla örlítið um hallarekstur ríkissjóðsins. Ég ætla þó að geta þess áður en ég kem að þeim lokaþætti að vinnulagið á milli 2. og 3. umr. er eitthvað sem ég kæri mig ekki um að upplifa aftur í fjárlaganefnd. Við lukum afgreiðslu þeirra tillagna sem fyrir lágu á tveimur fundum. Fyrri fundurinn var þannig að Samband íslenskra sveitarfélaga mætti með erindi sitt og í framhaldi af því að fundi var slitið varð engin frekari umræða í nefndinni um það, það var skilið eftir opið. Síðari fundurinn var þannig að í rauninni var illmögulegt að átta sig á því um hvaða mál við vorum að fjalla, sérstaklega á fyrri hluta fundarins, og ég held að við getum tekist á um hvort honum hafi verið frestað eða slitið. Síðari hluti fundarins fór eingöngu í að taka út málið sem boðað hafði verið að yrði tekið út. Það tók sólarhring að ná því út úr nefndinni og fyrst og fremst var um að kenna lélegum undirbúningi. Ég held að við sem skipum nefndina getum öll verið sammála um að við kærum okkur ekki um að þurfa að upplifa slík vinnubrögð á ný.

Fjárlagafrumvarpið ber það með sér að markmið ríkisstjórnarinnar sem sett var í samstarfsáætlun með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og í áætlun sem unnin var um jöfnuð í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013, er langan veg frá því að ganga upp. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að seinka þessu til ársins 2014 og miðað við þær tölur sem nú liggja fyrir í frumvarpinu má gera ráð fyrir að frekari seinkun geti orðið. Í það minnsta hef ég ekki ýkja mikla trú á því að fjárlög fyrir árið 2013 líti þannig út að menn gangi nálægt þeim tugmilljóna halla sem verður á fjárlögum ársins 2012. Ég held að það sé alveg ljóst, miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið í fjárlaganefnd, að gera má ráð fyrir að hallinn á fjárlögum ársins 2012 verði ekki þeir 17 milljarðar sem að var stefnt, og ekki sá 21 milljarður sem tillögur meiri hlutans ganga út frá. Hann verður meiri. Hann verður að lágmarki, að mati okkar í 1. minni hluta og við gætum þokkalegrar varúðar í því hvernig við reiknum það, 31 milljarður.

Það kann að vera að menn afsaki þetta þannig að það sem er hvað stærst í þessu sé einskiptisaðgerð; skuldbindingin sem fellur á ríkissjóð vegna yfirtöku Landsbankans og Sparisjóðs Keflavíkur. Það er mikið til í því en síðustu þrjú ár höfum við oft og tíðum glímt við einskiptisaðgerðir. Þær leiða meðal annars af þeim heimildarákvæðum sem eru í 6. gr. fjárlaga og hafa oft verið rædd og þingmenn hafa almennt verið fremur andvígir í heildina tekið. Þrátt fyrir það hefur einhvern veginn aldrei verið tekið á þessum þáttum.

Fulltrúar 1. minni hluta lögðu fram tillögu við 2. umr. um breytingar á 6. gr., við gerðum það á grundvelli samstöðu sem náðst hafði í fjárlaganefndinni um að gera breytingar á meðferð 6. gr. heimilda. Þar er um að ræða opnar heimildir, galopnar fyrir fjármálaráðherra hvers tíma, til að skuldbinda ríkissjóð. Við vildum setja einhver mörk á þær heimildir og við höfum náð, meiri hluti og minni hluti í nefndinni, saman um tillögu sem við munum væntanlega standa saman um að flytja. Hún liggur einfaldlega í þeim orðum að við viljum fá upplýsingar til þingsins um fjárhagsleg áhrif þeirra heimilda sem ætlunin er að beita og fara yfir ákveðin fjárhæðarmörk. Það má í sjálfu sér spyrja sig, og ég tel það raunar vera næsta skref, hvers vegna við séum yfirhöfuð með svo galopnar heimildir sem þessar í fjárlögum. Vissulega þarf að vera fyrir hendi eitthvert svigrúm en á tímum þar sem krafist er enn meiri aga í öllu því sem lýtur að ríkisfjármálum er sjálfsagt að gera kröfu til allra þátta varðandi framkvæmd fjárlaga. Ég lít svo á að sú tillaga sem fjárlaganefnd hefur náð saman um sé til þess fallin að ná betri tökum á því sem við erum að gera. Næsta skref hlýtur að vera að setja enn frekari skorður við ákvæði í 6. gr. heimildum og á endanum verður þetta væntanlega sárafá ákvæði ef nokkur.

Ég vil líka nefna í framhaldi af 2. umr. fjárlaga, að þar hafði ég á orði í upphafi máls míns að löngu væri tímabært að við breyttum umræðunni í þingsal um fjárlög ríkisins. Ég hef sett saman drög að frumvarpi um breytingar á lögum um þingsköp Alþingis og sent á fjárlaganefndarmenn, fengið við því ágætisviðbrögð og sé greinilegan vilja meðal fjárlaganefndarmanna til að vinna að því að við náum saman um að flytja það frumvarp sem ég hef sent þeim. Sjálfsagt munum við gera einhverjar breytingar á því til að reyna að ná saman um þetta en ég brýni sérstaklega fulltrúa stjórnarliða í fjárlaganefnd að taka þessu fagnandi og leggja á þennan vagn með okkur til að við getum gefið betri mynd af því sem við erum að fást við í þingsal en raun hefur borið vitni um síðustu ár eða áratugi. Fjárlagaumræðan felst mestan part í einræðum, oft og tíðum er talað fram á nótt og þeir sem fylgjast með umræðunni fá enga heildarsýn á málið. Betra væri að vinna þetta eins og hér er lagt upp með. Aðalnýjungin í þessu frumvarpi felst í því að í hverri umræðu, auk almennrar inngangsumræðu sem er að sjálfsögðu framsaga fjármálaráðherra fyrir frumvarpi og framsaga nefndarálita, er gert ráð fyrir sérstökum umræðulotum um einstaka málaflokka þar sem ráðherrar mundu sitja fyrir svörum og taka þátt í umræðunni. Við 2. umr. sætu einnig forsvarsmenn viðkomandi fagnefnda og stæðu fyrir máli sínu þar. Ég held að mjög eðlilegt sé að leiða inn þessar breytingar, ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á uppbyggingu fjárlagafrumvarpsins þegar farið var að innleiða rammafjárlagagerð þar sem ráðherrar og eftir atvikum nefndarformenn leggja línur í þeim málaflokkum sem undir þá heyra.

Við þessa frumvarpssmíð hef ég stuðst við fyrirmyndir frá Svíþjóð og Noregi. Í Svíþjóð er rík hefð fyrir rammafjárlagagerð. Fyrirkomulagið í Noregi er dálítið öðruvísi, þar er aðalumræðunni skipt annars vegar í almenna umræðu og hins vegar umræðu um einstök útgjaldasvið eins og ég hef nefnt hér. En sá reginmunur er á, miðað við hér, að þar sendir hver nefnd þingsins nefndarálit sitt til þingsins og það álit fær sérstaka umræðu í þingsal. Ég geri tilraun til að nálgast þetta hérna með því að brjóta umræðuna upp eftir málefnasviðum og þá geta nefndarálit eftir atvikum, þegar þannig háttar til, komið inn í þá umræðu. Ég vonast til að samnefndarmenn mínir í fjárlaganefnd komi í þessa vinnu með mér og þegar við tökum til hendinni við fjárlög fyrir árið 2013 eigum við þess kost að vera með betri, upplýstari og meira upplýsandi umræðu um fjárlög íslenska ríkisins en við höfum haft í langan tíma.