140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:39]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, reynsla margra sveitarfélaga af einkaframkvæmdaleiðinni hvað varðar stórbrotin íþróttamannvirki og fleira frá liðnum áratugum er stundum slæm og stundum hörmuleg, í einstaka tilfellum þokkaleg. Þetta ber að skoða vel og vandlega.

Ég hef verið opinn fyrir því að fara þessa svokölluðu leiguleið, einkaframkvæmdaleið, ef við sjáum fram á að hún skili okkar hagstæðari niðurstöðu en hin. Ég þakka þingmanninum fyrir afdráttarlaus sjónarmið í umræðunni. Ég tek það fram að ég held að það sé gott að ekki sé búið að taka þessa ákvörðun. Það er ágætt að hleypa verkefninu af stað, setja fjármagn í hönnun og undirbúning og geta svo tekið ákvörðun af yfirvegun og skynsemi út frá því hvað sé hagkvæmast fyrir ríkissjóð. Ég tek undir það að það er mjög gott að fá fram sjónarmiðin og ná góðri niðurstöðu.

Aftur um hitt, af því að það var einmitt bent á allsherjar- og menntamálanefnd, þá var fundur þar í morgun með fulltrúum frá Fangavarðafélaginu og ráðuneytinu og þar speglaðist vel sú mikla sátt sem hefur náðst um þessa lendingu á milli sjónarmiða í þessu máli og allir fagna því að nú eigi að ráðast í löngu tímabæra uppbyggingu og endurnýjun á fangelsismálum á Íslandi.