140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:41]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu hér áðan sem ég get að ýmsu leyti tekið undir. Hv. þingmaður viðraði við 2. umr. fjárlaga í síðustu viku ýmsar hugmyndir um breytt vinnufyrirkomulag í fjárlaganefnd sem hafði af og til verið til umræðu hér á þingi. Ég get verið honum nokkuð sammála um þau meginsjónarmið sem þar komu fram og tel að við ættum að reyna að vinna að því innan fjárlaganefndar að ná sameiginlegri niðurstöðu um tillögur í þeim efnum, og fleiri efnum reyndar sem ég held að sé mikilvægt að fjárlaganefnd beri inn á þing og reyni að koma í gegn.

Annað sem mig langar að nefna við hv. þingmann og spyrja hann út í er erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga á fundi fjárlaganefndar á dögunum og þær áherslur sem þeir vildu færa fjárlaganefnd fyrir vinnu fjárlagafrumvarpsins, eða eins og þeir orðuðu það ef ég man rétt, að kostnaðarvaldurinn hyrfi sem þeir bera af öllum þessum ósköpum. Þegar kostnaðarvaldurinn hverfur er það annaðhvort eins og í þessu tilfelli að einhver greiðir þá kostnaðinn fyrir sveitarfélögin eða þau losna við verkefnið. Það er í raun ekki nema tvennt í því sambandi, annaðhvort borgar einhver verkefnið fyrir sveitarfélögin eða tekur það af þeim.

Hver er afstaða hv. þingmanns varðandi einmitt þetta sjónarmið Sambands íslenskra sveitarfélaga? Er rétt að leysa sveitarfélögin undan lögbundnu hlutverki sínu á ýmsum sviðum eða er rétt að þau haldi þessu lögbundna hlutverki sínu (Forseti hringir.) en ríkið greiði fyrir það?