140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:46]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið en geri mér samt ekki alveg grein fyrir því sem hann á við. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, að það er um hið opinbera að ræða, þ.e. sveitarfélög og ríkið. Okkur hættir oft og tíðum til, og oftar en nauðsynlegt er, að skilja þar á milli. En það er nú einu sinni þannig að sveitarfélögin hafa ákveðnar skyldur gagnvart íbúum sem þar búa, sveitarfélögunum hafa verið faldar ákveðnar skyldur og verkefni af hálfu ríkisins og með því hefur fylgt fjármagn. Sveitarfélögin eru virkilega í miklum vanda en það er ríkissjóður líka og ríkið sömuleiðis. Ég held að hlutfallslegur vandi ríkissjóðs sé margfaldur á við það sem sveitarfélögin hafa þurft að glíma við. Þess vegna er ég að velta fyrir mér hvað menn eiga við þegar þeir tala um að taka burt kostnaðarvaldinn. Ef lögbundnu verkefnin eru tekin af sveitarfélögunum hljóta fjármunirnir að fylgja þeim og varla dregur það úr vanda (Forseti hringir.) sveitarfélaganna. Ég held að þetta sé verð umræða og ætla ekkert að krefja hv. þingmann (Forseti hringir.) um endanlegt svar við þessu en ég spyr samt sem áður.