140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég held að ég geti fullyrt að þegar sveitarfélögin tala um að draga burt kostnaðarvaldinn eigi þau ekki við að ríkisvaldinu verði ýtt frá. Það er ekki kostnaðarvaldurinn í þeim skilningi (Gripið fram í.) en hins vegar leggur ríkisvaldið á herðar sveitarfélögunum skyldur með lagasetningu og sá er munurinn á ríkissjóðnum og sveitarsjóðum að stjórnvaldið og þingið hefur skattlagningarvald eins og það lystir í rauninni en sveitarfélögin eru með tekjustofna sem eru ákvarðaðir með lögum þannig að svigrúm sveitarfélaganna til að bregðast við, þess vegna með aukinni skattheimtu, er akkúrat ekki neitt nema innan þeirra marka sem löggjafinn setur þeim.

Að því leytinu til eru þau í miklu erfiðari stöðu og eru þiggjendur í þessu sambandi. (PHB: Það vantar atvinnu.) Svo er annar handleggur að það vantar atvinnu og uppbyggingu á því sviði, en í stöðunni (Forseti hringir.) eins og hún er og eins og hún birtist eru sveitarfélögin að lýsa því yfir að þau ráði ekki við öll lögbundin (Forseti hringir.) verkefni með þeim tekjustofnum sem þau hafa.