140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem ég var að sjálfsögðu ekki að öllu leyti sammála en það kom margt ágætt fram þar engu að síður.

Varðandi það frumvarp sem hv. þingmaður boðar vil ég koma hingað upp og fagna því en jafnframt inna þingmanninn eftir því, frú forseti, hvort það frumvarp, sem er til breytinga á lögum á þingsköpum, sé ekki einmitt sú breyting sem kemur í tengslum við það að hér verði rammafjárlög samþykkt að vori og hvernig hann sjái fyrir sér að þetta verði hluti af rammanum þar sem við ákvörðum útgjöldin eða hvort þetta verði sem sagt hluti af haustumræðunni þar sem við skiptum niður fé á málaflokka. Það var kannski eiginlega þetta sem ég vildi heyra frá hv. þingmanni, hvar hann sæi þetta eiga að koma að í fjárlagagerðarferlinu.

Síðan vildi ég líka inna hann eftir öðru. Nú fer þetta inn í frumvarp frá þingmanninum og til þingskapanefndar, hvernig sér hann aðkomu fjárlaganefndar að vinnslu frumvarpsins?