140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir samvinnuna á mörgum sviðum. Mér finnst ríkja góður andi í nefndinni og þar fer fram málefnaleg umræða. Mér finnst líka gæta aukins vilja hjá þingmönnum meiri hlutans til að ráðast í nauðsynlegar breytingar á þeim lögum sem fjalla um fjárlagagerðina, ríkisreikninga og eftirlit svo að dæmi séu tekin. Ég held því að við séum almennt á réttri leið.

Ég verð samt að hefja mál mitt á því að gagnrýna þau vinnubrögð sem voru viðhöfð um helgina. Boðað var til fundar í nefndinni á laugardag kl. 3 og okkur var sagt að það ætti að taka málið út á þeim fundi. Síðan frestaðist fundurinn og fyrir okkur voru lögð gögn með tölum sem stemmdu einfaldlega ekki. Við sem sitjum í minni hlutanum gagnrýndum það harðlega, og mig langar að hrósa formanni fjárlaganefndar sérstaklega fyrir að hafa tekið af skarið fyrir rest og frestað fundinum fram á kvöld á sunnudeginum. Það er að sjálfsögðu enginn bragur á því að vera að klára fjárlagavinnu á sunnudagskvöldi en þá lágu einfaldlega fyrir þau gögn sem alltaf, án undantekningar, á að leggja fram þegar mál eru afgreidd úr nefnd. Ég ætla líka að leyfa mér að fullyrða að miklu betri vinnufriður mundi skapast ef menn vönduðu sig einfaldlega meira hvað þennan þátt varðar.

Á ráðstefnu á Akureyri, þar sem fjallað var um stjórnarskrána, heyrði ég að hugsanlega væru átakastjórnmál viðvarandi ástand á Íslandi. Ég vona svo sannarlega að sú sé ekki raunin. Ég finn að fyrir því er að verða aukinn meiri hluti hér á Alþingi, og ég vona það, að taka upp samræðustjórnmál í staðinn fyrir þau átakastjórnmál sem einkennt hafa störf núverandi ríkisstjórnar og jafnvel störf fyrri ríkisstjórnar, en ég get svo sem ekki dæmt um það sem gerðist fyrir árið 2007 þar sem ég var ekki kominn á þing þá.

Ég vil samt segja eitt: Á árinu 2007 ákvað ríkisstjórnin, sem þá var skipuð þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, að breyta þingsköpum. Mér fannst þær breytingar ekki nægilega góðar, t.d. átti að stytta umræður, gera þær skemmtilegri, en ég held við séum einfaldlega ekki búin að bíta úr nálinni með það, í staðinn fyrir skemmtilega umræðu höfum við á margan hátt fengið ómálefnalega umræðu hér í þingsal. Það er gott að hafa, t.d. í þessari umræðu, rúman tíma til að fjalla um þær tillögur sem fyrir liggja en 20 mínútur er svona meginreglan fyrir okkur þingmenn til að fjalla um einstök mál.

Hér fyrr í dag komu til umræðu nýlegar breytingar á þingsköpum Alþingis. Það liggur fyrir að úttekt á tekjukafla fjárlaganna vantar. Við í fjárlaganefnd, eða ég að minnsta kosti, stóðum í þeirri meiningu að efnahags- og viðskiptanefnd tæki þann kafla til umfjöllunar eins og hún hefur gert undanfarin ár en ég rak svo augun í það í þingsköpum Alþingis að hvergi er ákvæði sem segir til um að þannig eigi að standa að þessu verki. Í rauninni segir að fjárlaganefnd eigi að gefa efnahags- og skattanefnd álit sitt á tekjuhluta fjárlaga. Ég held að það hafi einfaldlega verið gerð mistök við gerð þessara þingskapa og að breyta þurfi þessum ákvæðum. Ég fagnaði því sérstaklega þegar ég heyrði formann fjárlaganefndar nefna að hún væri reiðubúin að skoða þessar breytingar þannig að við mundum ekki lenda í sömu stöðu aftur. En eins og ég segi þá greini ég aukinn vilja til breytinga.

Í hverju einasta áliti sem ég hef lagt fram við fjárlagaumræðuna hef ég verið með langan kafla um aga og agaleysi í fjármálum þjóðarinnar, og þá sérstaklega við fjárlagagerðina. Ég hef óskað eftir því að fram fari utandagskrárumræða um þennan lið. Hún verður einmitt haldin á morgun að lokinni atkvæðagreiðslu, væntanlega um fimmleytið eða um það bil, það fer eftir því hve löng atkvæðagreiðslan verður. En þetta er alveg í samræmi við umræðu um allan heim, ekki bara á Íslandi. Við höfum heyrt Angelu Merkel taka þetta mál upp, hún hefur rætt það að ef menn ætli að búa við evruna innan Evrópusambandsins þurfi að koma á auknum aga í ríkisfjármálum þeirra ríkja sem hafa þann gjaldmiðil. Ég held að það sé það sem við Íslendingar þurfum sérstaklega að gera.

Ef hér ríkti agi í fjárlagagerð og þeim útgjaldatillögum sem ríkisstjórnin leggur fram á hverjum tíma held ég að vel væri hægt að lifa með krónunni og rúmlega það; ég held hún gæti verið sá gjaldmiðill sem skipti sköpum fyrir framtíð Íslands. Flestir viðurkenna að krónan er að bjarga okkur í þeim hremmingum sem við urðum fyrir við bankahrunið. Hér er einfaldlega miklu minna atvinnuleysi en verið hefði ef við hefðum ekki haft sveigjanlegan gjaldmiðil. Ég skal verða fyrstur manna til að viðurkenna að það þarf að vinna með gjaldmiðilinn okkar og koma þeim aga á í ríkisfjármálum að hann geti verið framtíðargjaldmiðill hér. Ég held að evran geti það einfaldlega ekki því að eins slæmt og það getur verið að vera með allt of sveigjanlegan gjaldmiðil getur líka verið slæmt að fara yfir í allt of fastan gjaldmiðil sem sveiflast ekki með hagvexti og atvinnumálum á Íslandi.

Ég hef lagt fram nefndarálit um frumvarp til fjárlaga 2012 frá 2. minni hluta fjárlaganefndar. Það er lagt fram við 3. umr. Ég vísa reyndar í mjög ítarlegt álit mitt sem lagt var fram við 2. umr. en tek þó á nokkrum hlutum sem breyttust á milli 2. og 3. umr. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði fram fyrir 3. umr. tillögu sem felur í sér nettóútgjaldahækkun að fjárhæð 522,3 millj. kr. Þar er gert ráð fyrir að tekjur aukist um 1.500,9 millj. kr. Þetta þýðir að heildarjöfnuður A-hluta ríkissjóðs verður neikvæður um að minnsta kosti 20.749,8 millj. kr. þar sem hallinn hefur aukist um 3.058,8 millj. kr. frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Ég fór ítarlega yfir það í fyrra áliti mínu að bara SpKef og þau framlög sem fóru þangað úr ríkissjóði geta gert það að verkum að þessar tölur hækki um að minnsta kosti 11 milljarða kr. og allt upp í 30 milljarða kr. Ég lagði fram töflu þar sem þetta er mjög ítarlega útlistað.

Þetta kemur einmitt inn á þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér í júní 2009 um ríkisbúskapinn á árunum 2009–2013. Þá voru sett fram markmið um frumjöfnuð og heildarjöfnuð og staðan er einfaldlega sú að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við eitt einasta markmið. Sem dæmi má nefna að þessi markmið voru byggð á þjóðhagsspá sem gerði ráð fyrir að hér yrði á árinu 2011 um 4,4% hagvöxtur og við erum því miður eins langt frá því og hugsast getur. ASÍ spáir rétt yfir 1% hagvexti á þessu ári, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er með hann í kringum 1,6% og Seðlabankinn aðeins hærri. En ég verð því miður að segja að niðurstaðan er einfaldlega sú að hagvöxtur verður ekki yfir 2% á þessu ári og er það á ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Fjölmörg verkefni hefði verið hægt að setja af stað. Álver í Helguvík hefði t.d. getað aukið hagvöxt um 1–2%. Álver eða einhvers konar atvinnuuppbygging á Bakka við Húsavík hefði að sama skapi skilað um 2% hagvexti og minna atvinnuleysi. Einnig má geta þess að ef uppbygging í ferðaþjónustu hefði átt sér stað, sem vonandi er enn opið og í umræðu, varðandi Grímsstaði á Fjöllum er um að ræða 20 milljarða kr. fjárfestingu sem gæti skapað um 500 störf og 2–3% hagvöxt á Íslandi. Við erum að tala um verkefni sem eru jú öll í Norðausturkjördæmi. Þar eru óþrjótandi tækifæri sem hafa öll verið slegin út af borðinu af núverandi ríkisstjórn. Þess vegna náum við hagvextinum ekki upp, þess vegna standast ekki þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér þó sjálf á árinu 2009.

Þetta hefur líka leitt það af sér að við búum við miklu hærri verðbólgu vegna þess að sá hagvöxtur sem við þó búum við er knúinn áfram af neyslu okkar Íslendinga. En verðbólga upp á 5,7% á síðustu mánuðum er einfaldlega ótæk fyrir íslensk heimili. Hún hefur áhrif á lánin en skuldastaða íslenskra heimila er einfaldlega langt frá því að vera nægilega góð og í raun ótrúlegt að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt meiri vilja í að ganga í að leiðrétta lán heimilanna. Í þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér átti verðbólgan að vera komin niður í 1,7% árið 2011. Það er langur vegur á milli 1,7% verðbólgustigs og 5,7% verðbólgustigs sem við búum við í dag.

Þetta þýðir í raun að ríkisstjórninni hefur meira og minna mistekist allt það sem hún ætlaði sér. Sumir hafa haldið því fram að þær hagvaxtarspár sem komið hafa fram hafi kannski verið óraunhæfar um margt en þær eru byggðar á stefnuyfirlýsingu sitjandi ríkisstjórnar. Það er ekki hægt að byggja hagvaxtarspár á neinu öðru en þeim verkefnum sem eru í bígerð og staðan er einfaldlega sú að ríkisstjórninni tekst ekki að koma neinum verkefnum af stað sem leiða til aukins hagvaxtar.

Við í Framsóknarflokknum höfum lagt fram ítarlegar efnahagstillögur sem miða að því að auka tekjurnar með því að framleiða okkur út úr vandanum. Það eru óþrjótandi tækifæri víðs vegar um landið sem geta aukið framleiðni á einn eða annan hátt og ég vísa í þessar efnahagstillögur okkar framsóknarmanna í áliti sem ég lagði fram við 2. umr. Þeim var ágætlega tekið og margir þingmenn lýstu því yfir að þær yrðu skoðaðar en ég get ekki séð að ríkisstjórnin sé farin að vinna sig í þá átt.

Þegar við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að halli ríkissjóðs er um 20–50 milljarðar fyrir næsta fjárlagaár þýðir það einfaldlega að við verðum í miklum vandræðum við næstu fjárlagagerð, þ.e. þegar við vinnum fjárlögin fyrir árið 2013. Árið 2013 er kosningaár jafnvel þó að ég voni að við kjósum fyrr. Mér sýnist ríkisstjórnin lifa eingöngu til þess að lifa; hún lifir að minnsta kosti ekki til að vinna til hagsbóta fyrir heimilin eða atvinnulífið í landinu. Þá getur myndast mikil útgjaldaþensla, þ.e. mikill þrýstingur verður á að gengið verði enn lengra, sérstaklega á kosningaári, og þá verður okkur virkilega vandi á höndum.

Meginuppistaðan í tekjuaukningu ríkissjóðs, sem meiri hlutinn hefur lagt fram, þ.e. þessar 900 milljónir, er tilkomin vegna hækkunar á áætlaðri úttekt á séreignarsparnaði á árinu 2012. Ég held að við eigum að staldra aðeins við þegar lagt er til að Íslendingar taki út séreignarsparnaðinn sinn, sem er einfaldlega lögvarinn, sem þýðir að bankar og innheimtustofnanir geta ekki tekið veð í þeim fjárhæðum, geta í raun ekki sótt þennan sparnað. En ríkið hefur heimilað að almenningur taki hann út og ég fæ ekki betur séð en hann renni beint inn í hítina í bönkunum sem hefur gert það að verkum að bankarnir eru nú þegar farnir að greiða sér arð.

Ég held að okkur hefði verið nær að hugsa þetta öðruvísi, skattleggja séreignarsparnaðinn fyrir fram í stað þess að gera það eftir á. Við í Framsóknarflokknum teljum að það sé hægt. Ef við tökum helminginn af þeim tekjum sem myndast og geymum rest — það verður þá væntanlega skattlagt seinna eða undir lokin — mundi það milda tjónið eða tekjutapið sem lífeyrissjóðirnir yrðu annars fyrir. Við höfum líka rætt að hugsanlega sé hægt að helminga tekjuskattsprósentuna til að ná fram sömu markmiðum. Þetta eru útfærslur sem ég er reiðubúinn að ræða hvar sem er og hvenær sem er og tel að geti gert það að verkum að við getum greitt hraðar niður þá vexti sem íslenska ríkið borgar í dag.

Við erum einfaldlega mjög illa stödd hvað varðar vaxtagreiðslur. Ríkissjóður á á næsta ári að greiða um það bil 78 milljarða í vexti eingöngu. Sem betur fer, og er ágætt að halda því til haga, eru ekki inni í þessu vextir út af Icesave. Vextir af samningunum sjálfum hefðu verið í kringum 20 milljarða. Þá værum við komin upp í 100 milljarða tæpa og hef ég ekki enn minnst á þá vexti sem hefðu fallið á Ísland vegna þess að menn voru reiðubúnir að greiða dráttarvexti einu og hálfu ári fyrir gjalddaga sem hefðu numið hvorki meira né minna en 35 milljörðum sem ríkisstjórnin var reiðubúin að greiða aukalega án lagaheimildar, án skyldu, til Breta og Hollendinga og ástæðan var „af því bara“. Þetta var hneyksli. Þetta var líka uppgjöf ríkisstjórnarinnar fyrir þessu stóra verkefni.

Hér í þingsal eru staddir ágætir þingmenn sem börðust mjög hart gegn þessu ásamt mér og félögum mínum í Framsóknarflokknum. Ég held að sagan muni einfaldlega sýna að þessi barátta átti heldur betur rétt á sér, enda hefur ekkert gerst af því sem sagt var að mundi gerast ef við segðum nei. (PHB: Frostavetur.) Frostaveturinn mikli átti að koma. Það er reyndar fimbulkuldi á Akureyri í augnablikinu, ég man varla sjálfur eftir öðrum eins kulda, en það er fallegt á að líta og búið að opna (Gripið fram í.) skíðasvæðið. En allar fullyrðingar í þá veru og að hér yrði Kúba norðursins áttu ekki við rök að styðjast. Lánshæfismat Íslands hefur hækkað, skuldatryggingaálagið hefur lækkað, hér hefur með öðrum orðum allt farið á betri veg.

Það er einfaldlega staðreynd að þær þjóðir sem skulda minna komast yfirleitt betur út úr vandræðum, eins og á við um okkur Íslendinga. Fyrrverandi stjórnvöld hafa oft verið gagnrýnd mjög harkalega en það verður samt að viðurkennast að það að hafa komið að skuldlausum ríkissjóði þegar kreppan hófst hefur reynst okkur mikill happafengur í þeim vandræðum sem við höfum verið að glíma við.

Annar meiri hluti gerir ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið fái hækkun um 548 millj. kr. Á móti þeirri hækkun er samsvarandi hækkun á eftirlitsgjaldi fjármálastofnana sem rennur lögum samkvæmt beint til reksturs Fjármálaeftirlits og er innheimt af því. Þetta er hluti af hinum svokölluðu mörkuðu tekjum sem við höfum víða annars staðar, t.d. markaðar tekjur af olíu- og bensíngjaldi sem renna til Vegagerðarinnar, nefskatturinn út af Ríkisútvarpinu og sóknargjöld sem eiga að renna til Þjóðkirkjunnar og eru innheimt af ríkissjóði. Varðandi þrennt af því sem ég minnist á er stór hluti tekinn af því í ríkissjóð sjálfan jafnvel þó að þetta séu markaðar tekjur. Þannig á ekki að hafa þetta varðandi Fjármálaeftirlitið, það er allt lagt í það, en 548 milljónir eru gríðarlega miklir fjármunir.

Meiri hlutinn féllst á það, og ég hrósaði þeim sérstaklega fyrir, að þessari fjárveitingu fylgdi það skilyrði að gerð yrði úttekt á starfsemi og rekstri Fjármálaeftirlitsins strax eftir áramót, vonandi. Ég er þeirrar skoðunar að ekki eigi að veita meiri fjármuni til Fjármálaeftirlitsins fyrr en sú úttekt hefur farið fram. Það er algjörlega ómögulegt í mínum huga að leiðrétta þetta eftir á. Það skapar agaleysi við fjárlagagerðina, agaleysi sem við þurfum svo sannarlega að losna undan.

Ég held að þetta sé því miður til marks um það að við höfum stokkið úr einum öfgunum í aðrar. Auðvitað þurfti að efla Fjármálaeftirlitið fyrir hrun. Ég talaði sérstaklega fyrir því á árinu 2007 að það yrði stóreflt, sem og Samkeppniseftirlitið. Þá voru komnar vísbendingar um í hvað stefndi og þá átti að efla Fjármálaeftirlitið. Það gerði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ekki.

Við verðum samt að horfast í augu við það að í dag er bankakerfið innan við 10% af því sem það var fyrir hrun. En ég fæ engan botn í að nú séum við komin með stofnun með 130 starfsmönnum, sem hefur fengið 500 milljónir í viðbót. Talað er um kúf í verkefnum en á sama tíma, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, er Fjármálaeftirlitið komið í glæsilegt húsnæði. Gott og vel, auðvitað þarf húsnæðið að vera í lagi, en gátu menn ekki aðeins hægt á sér? Átti ekki að liggja fyrir nákvæm rekstraráætlun um þörf Fjármálaeftirlitsins til að réttlæta þá gríðarlega miklu fjármuni sem renna til embættisins?

Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið hægt að nota þessa fjármuni í að efla heilbrigðisþjónustu hringinn í kringum landið. Við sjáum að Sjúkrahúsið á Akureyri fær litlar 5 milljónir í aukningu. Það mun væntanlega ekki koma í veg fyrir að þjónustan skerðist á sjúkrahúsinu, sem átti víst að efla að því er ég hélt, en þar hefur verið skorið gríðarlega mikið niður. Barnadeildin gæti misst þá sérfræðinga sem þar eru vegna þess að til stendur að loka um helgar og kannski hluta af sumrinu. Það þýðir einfaldlega að foreldrar með langveik börn verða að hugsa sér til hreyfings vegna þess að þau verða að njóta sólarhringsþjónustu allan ársins hring, þjónustu sem hefur verið til staðar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Þá komum við kannski að heilbrigðismálunum. Í fyrra hófst umræðan um heilbrigðismálin á þann veg að boðaður var 40% niðurskurður hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, 38% hjá Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki og örlítið minni niðurskurður hringinn í kringum landið, en hlutföllin voru gríðarlega há. Það tókst sem betur fer að milda niðurskurðinn fyrir 2. umr. áður en fjárlögin voru kláruð, en engu að síður var eftir sem áður gríðarlega há hagræðingarkrafa á þessar stofnanir sem var svo frestað til ársins í ár. Þegar niðurskurður ársins kom svo fram þá þýddi það einfaldlega að heilbrigðisstofnanir, sem höfðu þurft að þola mikinn niðurskurð árið áður, fengu frestunina ofan á þau 1,5% sem skera átti niður. Það þýddi til dæmis 8–9% niðurskurð hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki.

Ég óskaði sérstaklega eftir því að fá útlistun frá velferðarráðuneytinu til að geta borið saman hagræðingarkröfuna eða niðurskurðinn á öllum þeim stofnunum sem hér um ræðir, Landspítalanum, Sjúkrahúsinu á Akureyri og öllum heilbrigðisstofnunum landsins. Það er ótrúlegt að framsetningin á þeim fjármunum sem áttu að vera til ráðstöfunar í fjárlagafrumvarpinu er ekki eins hvað einstök sjúkrahús snertir. Ég fékk blað sem ég hélt að mundi nú leysa þetta en þegar ég hafði rýnt í það og séð að það svaraði ekki spurningum mínum ræddi ég við formann fjárlaganefndar og benti henni á að þessar tölur lægju einfaldlega ekki skýrar fyrir. Hún tók afskaplega vel í það að ég fengi þessar upplýsingar en þá komu einfaldlega þau skilaboð úr velferðarráðuneytinu að ekki gæfist tími til að leggja þessar tölur fram fyrir 3. umr. Ég verð að gera athugasemd við þessa framsetningu. Þegar um jafnstóran lið er að ræða og niðurskurð í velferðarmálum verða allar tölur að liggja fyrir og ítarlegur útreikningur á því hvernig fjárheimildum er varið til hvers sjúkrahúss, hver hallinn er, hver væntanlegur halli verður, verðbætur o.s.frv. — fyrir Landspítalann er St. Jósefsspítali tekinn inn í dæmið. Ég vona svo sannarlega að þessar upplýsingar komi frá velferðarráðuneytinu sem allra fyrst en ég vil samt taka það fram að vel var tekið í beiðni mína þó að ég gagnrýni að þessar tölur hafi ekki komið fram fyrr í umræðunni.

Sú spurning hlýtur líka að vakna hvort vísvitandi sé verið að leggja málin svo seint fram að fjárlaganefndarmönnum gefist ekki kostur á að rýna ítarlega í þær tölur sem lagðar eru fram. Ef svo er þá er það einfaldlega pólitískur leikur sem við þurfum að losna undan. Ég er sannfærður um að hér færi fram miklu málefnalegri umræða, ítarlegri og efnislega kjötmeiri, ef menn hefðu allar tölur og upplýsingar fyrir framan sig þegar umræður um fjárlög hefjast á hverju ári.

Ég vísa enn á ný í utandagskrárumræðu sem ég hef óskað eftir og verður haldin seinnipartinn á morgun eftir 3. umr. um þau fjárlög sem nú eru til umræðu. Þá mun ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þessi vinnubrögð og hvort við þurfum ekki að ræða þau eitthvað. Ég mun líka ræða þær ábendingar sem ítrekað hafa komið frá Ríkisendurskoðun. Þetta er að verða eins og rispuð plata vegna þess að Ríkisendurskoðun bendir á sömu hluti ár eftir ár. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gert fína úttekt á því sem er að, bent á ýmsar gloppur í lögunum um fjárlögin og að þau þurfi að laga.

Ég gagnrýndi sérstaklega hvernig farið er með safnliði hvers árs. Ég hef verið þeirrar skoðunar að frekar eigi að auka vald Alþingis í staðinn fyrir að færa valdið þaðan til framkvæmdarvaldsins. Það var fullyrt í mín eyru að ferlið yrði gegnsærra og faglegar unnið en ég hef ekki séð neinar vísbendingar um að sú sé raunin. Ég hef hins vegar séð vísbendingar um að sú sé einmitt ekki raunin. Mig langar að beina því til hv. þingmanna í fjárlaganefnd, sem studdu þetta, hvort þeir séu sammála mér um að úthlutunin sé faglegri en hún var. Gott og vel, það mátti að sjálfsögðu breyta henni og gera ferlið opnara og koma kannski inn með lagabreytingu þess efnis að fjárveitingar yrðu rökstuddar, sérstaklega höfnun á fjárveitingu, en að færa þetta inn í ráðuneytin að stærstum hluta — eins og ég skil það þá ætla embættismenn einfaldlega að sjá um þessar úthlutanir, ráðherrann ber svo ábyrgð á þeim á endanum. Ég er sannfærður um að það var ekki markmiðið.

Eitthvað fór í menningarsamningana. Ég hafði svo sem ekki miklar athugasemdir við það en benti á að sveitarstjórnarmenn á hverjum stað væru ekkert betur til þess fallnir að hafa þá yfirsýn sem fjárlaganefndarmenn hafa yfir allt landið. Við horfum nú upp á að sveitarstjórnarmenn rífast um það sín á milli hvort veita eigi fjármuni til einhvers verkefnis í þeirra sveitarfélagi en ekki til sveitarfélagsins við hliðina á því. Ég held við séum einfaldlega ekkert betur sett með þetta en áður var og ég vísa í gagnrýni sem kom frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og einstökum sveitarstjórnarmönnum þar að lútandi.

Annar minni hluti hefur lagt fram breytingartillögur við fjárlögin og ég ætla að gera grein fyrir þeim hér. Við höfum lagt til að sóttir verði 42 milljarðar í fyrirframskattlagningu á séreignarsparnaði. Við teljum líka að aukning aflaheimilda og atvinnuuppbygging í orkufrekum iðnaði muni leiða til aukins hagvaxtar sem síðan muni skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs. Þannig hefði verið hægt að hlífa heimilum landsins og barnafólki sérstaklega við skattahækkunum og myndast hefði svigrúm til að gæta að velferðarkerfinu, efla samgöngur með smærri samgönguverkefnum og tryggja að allir landsmenn megi búa áfram við öryggi með því að efla löggæslu.

Svo að ég fari í einstaka liði þá leggjum við til að bætur til atvinnulausra og lífeyrisþega hækki í takt við hækkun lægstu launa. Þar er um að ræða umsamda hækkun í tengslum við gerð kjarasamninga 5. maí 2011 en samkvæmt þeim eiga lægstu laun og þar með bætur að hækka um 11.000 kr. 1. febrúar 2012. Í frumvarpi til fjárlaga kemur fram að ríkisstjórnin hyggst brjóta samninginn, atvinnuleysisbæturnar munu aðeins hækka um 5.500 kr. en ekki 11.000 kr. og leggur 2. minni hluti til að þær hækki í takt við hækkun lægstu launa.

ASÍ hefur gagnrýnt þetta mjög og lýst því yfir nú nýverið að forsendur kjarasamninga séu einfaldlega brostnar og mikil hætta á að þeir muni ganga frá þeim samningum. Við framsóknarmenn erum einfaldlega þeirrar skoðunar að ef samið hefur verið um tiltekna fjárhæð verði ríkið að standa við það hvað sem tautar og raular. Maður hugsar með sér hvort ríkisstjórnin hafi samþykkt eitthvað eingöngu til að losna við þann ágreining sem myndaðist við kjarasamningaviðræðurnar í vor og hún hafi ákveðið að ýta verkefninu frá sér, taka á vandanum við gerð fjárlaga eins og við horfum nú upp á.

Ég skil vel reiði fulltrúa launafólks í landinu. Við höfum lagt þessa tillögu fram, og ég boðaði hana við 2. umr. og hv. þingmenn Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir hafa lagt fram sams konar tillögu og mér skilst að fjárhæðir séu nákvæmlega þær sömu. Þetta kemur í einn stað niður, það var ekki tilgangurinn með framlagningunni að toppa þeirra tillögu. Ég hélt reyndar að ég hefði verið búinn að boða að tillaga mín yrði lögð fram, en tillaga þeirra kom inn í þingið þegar ég var búinn að skrifa álit mitt. Við erum að minnsta kosti sammála um að þetta verði bætt atvinnulausum, ellilífeyrisþegum og öryrkjum.

Við leggjum líka til að útgjöld til Vegagerðarinnar verði aukin. Þessi gríðarlegi niðurskurður hefur bitnað mjög á samgöngumálum á landsvísu og hefur fyrst og fremst bitnað á smærri samgönguverkefnum í sveitum landsins. Þar nefni ég sérstaklega einbreiðar brýr, olíuburð vega og almennt viðhald á vegum sem nánast má telja ófæra víða um okkar fagra land. Þetta mun leiða af sér að hinir smærri verktakar munu fá aukin verkefni. Þeir eru hópur sem hefur orðið sérstaklega illa úti í efnahagshruninu. Margir þeirra eiga í stríði við fjármögnunarleigufyrirtæki. Ég hef reyndar komið með fyrirspurn hér á þingi þar um og vil ég sérstaklega taka út viðbrögð forsvarsmanna Lýsingar sem hafa ekki viljað koma til móts við þær gagnrýnisraddir sem að þeim hefur verið beint og verið mjög tregir til að taka þátt í þeim samningum sem ríkið hefur lagt til að gerðir yrðu.

Við lögðum til að niðurgreiðslur á flugi innan lands yrðu auknar. Meiri hlutinn kom reyndar til móts við þá tillögu okkar og setti þar inn 10 milljónir sem þýðir að niðurgreiðslur á flugi til Sauðárkróks og Hafnar í Hornafirði ættu að vera tryggðar á næstu árum. Mér skilst að taka eigi þessa samninga upp og endurskoða þá og það er í góðu lagi og þarft að gera það. En það var nauðsynlegt að þetta kæmi inn og ég vil þakka félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir að hafa komið til móts við þær tillögur sem við lögðum fram í þeim efnum.

Þá leggjum við líka til að liður sem var felldur niður í fjárlagagerð fyrir árið 2011, og fjallaði um framkvæmdir við jarðgöng, verði settur inn aftur. Okkur innanríkisráðherra greindi reyndar á um hvort hann hefði verið felldur niður eða ekki, hann vildi meina að hann hefði verið felldur niður en ég taldi að þeir fjármunir sem hefðu verið ætlaðir í jarðgangagerð ættu heima undir liðnum sem fjallaði almennt um framkvæmdir. En gott og vel, þarna er þetta komið mjög skýrt og gerir það að verkum að hægt verður að ráðast í þau jarðgöng sem eru næst á núgildandi samgönguáætlun, til að mynda við Norðfjarðargöng sem eru þarnæst á dagskrá. Þessir fjármunir eiga að tryggja að eðlilegur undirbúningur, eins og að byggja brýr í áttina að göngunum, komist af stað.

Við efnahagshrunið jókst álagið á lögregluna víðs vegar um landið. Það sama á við um landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið. Nú er svo komið að erfitt hefur reynst að manna vaktir og halda uppi lágmarksþjónustu til að tryggja öryggi borgaranna. Við höfum lagt til að settir verði fjármunir í almenn löggæsluverkefni hringinn í kringum landið. Staðan er einfaldlega orðin þannig að tíminn sem lögreglan ver í útköll er orðinn allt of langur. Lögreglan keyrir til dæmis ekki um kjördæmin eins og hún gat gert hér áður fyrr heldur situr hún og bíður eftir útkalli sem þýðir að þeir sem eru staðsettir hvað lengst frá miðstöð lögreglunnar þurfa hugsanlega að bíða í klukkutíma eða rúmlega það eftir því að hún mæti á svæðið. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að alvarleg slys geta orðið án þess að hægt sé að koma fólki til bjargar innan þess tíma sem eðlilegar kröfur eru gerðar um.

Við vekjum athygli á því að sóknargjöld hafa lækkað um 20% frá árinu 2008, að teknu tilliti til úrsagna úr þjóðkirkjunni. Á sama tíma hafa greiðslur til annarra stofnana innanríkisráðuneytisins hækkað vegna verðbóta um 5%. Ég benti á það við 2. umr. að staðan væri orðin svo slæm að ekki væri hægt að halda úti grunnstarfi í mörgum sóknum víðs vegar um landið, þ.e. starfi sem snýr að menningarmálum, líknarstarfi auk þess sem viðhaldi á kirkjum, sem eru jú mikilvægar byggingar í ferðamannaþjónustu, hafa mikið aðdráttarafl, hefur ekki verið komið við og stefnir í óefni hvað það varðar. Meiri hlutinn hefur að hluta til komið á móts við þessa ábendingu mína en ekki nægilega þannig að við leggjum til að sóknargjöldin verði einfaldlega sett á sama plan og gjöld annarra stofnana innanríkisráðuneytisins. Það eru engin rök fyrir því að taka kirkjuna sérstaklega fyrir. Reyndar hefur komið í ljós og var flett ofan af því í grein í sunnudagsmogganum að þjóðkirkjan hefur þurft að þola linnulausar skipulagðar árásir minnihlutahóps sem virðist hafa þann eina tilgang að grafa undan því starfi sem þar hefur verið unnið. Ég tel rétt að snúa þeirri umræðu við, tala frekar um það jákvæða og góða starf sem þar er unnið víðs vegar í kringum landið. Kirkjan er ekki hafin yfir gagnrýni en það er heldur ekki sanngjarnt að hún þurfi að þola þann málflutning sem hún hefur þurft að þola upp á síðkastið.

Við leggjum til að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands fái auknar fjárheimildir. Íþróttahreyfingin hefur mætt erfiðleikum undanfarin ár. Hún hefur gert það af ábyrgð og sýnt aðstæðum skilning. En niðurskurður til íþróttatengdra verkefna í þágu fjárhagslegrar hagræðingar er því miður ekki ásættanlegur til lengri tíma. Til að Íþróttahreyfingin geti sinnt hlutverki sínu, og þá sérstaklega hinu mikilvæga forvarnastarfi, þarf hún að fá auknar fjárheimildir. Því miður hefur verið hætt að fylgjast með áfengisneyslu barna og unglinga og við höfum lagt til að úr því verði einfaldlega bætt til að hægt sé að halda utan um þessi mál því að forvarnir fyrir börn og unglingar mega alls ekki falla niður hér á landi, hvort sem er í kreppu eða ekki. Börnin okkar eru framtíðin og við verðum að hlúa að þeim með öllum tiltækum ráðum. Þetta eru ekki miklir fjármunir, þetta eru um 2 millj. kr., og ég vona svo sannarlega að meiri hlutinn taki vel í að sú upphæð verði sett í aðgerðaáætlun stjórnvalda í áfengismálum. Ég vona svo sannarlega að tekið verði tillit til þess.

Við leggjum líka til að ferðasjóður Íþróttasambands Íslands fái aukin fjárframlög. Sá samningur sem gerður var hefur einfaldlega verið svikinn. Þetta skiptir miklu máli fyrir íþróttastarf og forvarnagildið eins og ég hef bent á. Þetta eru ekki miklar fjárhæðir í því stóra samhengi sem við ræðum í dag en getur skipt sköpum hvað varðar þessi málefni.

Við framsóknarmenn höfum lengi talað fyrir því að vel sé haldið utan um Fæðingarorlofssjóð. Ég held að þessi sjóður hafi kannski gert það að verkum að það horfi til batnaðar varðandi jafnrétti kynjanna. Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt að feður tækju líka ábyrgð á börnunum sínum, þ.e. að þeim yrði gert kleift til jafns við konur að vera heima með nýfæddum börnum. Útgjöldin hafa lækkað vegna aðhaldsaðgerða sem gripið var til hér á árum áður auk þess sem útgjöld hafa lækkað umtalsvert í kjölfar breytinga sem gerðar voru á hámarksgreiðslum úr sjóðnum á þessum árum. Við leggjum til að sjóðurinn verði styrktur á ný þannig að hann þjóni tilgangi sínum.

Þá höfum við ítrekað mikilvægi barnabóta. Ég held að barnafjölskyldur séu sá hópur sem farið hefur hvað verst út úr hruninu. Barnafólk hefur eðli málsins samkvæmt þurft að setja fjármuni í að koma sér þaki yfir höfuðið. Þetta er fólkið sem stendur verst í dag og barnabætur skipta því gríðarlega miklu máli. Barnabætur verða fyrir 10,2% skerðingu í fjárlögum yfirstandandi árs og við leggjum einfaldlega til að sú skerðing verði dregin til baka. Vonandi tekur meiri hlutinn vel í þær tillögur.

Við höfum rætt ítarlega um það starf sem farið hefur fram á Alþingi. Hv. þingmenn Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir hafa bent á að ekki hafi verið ritarar til taks til að aðstoða þau með tillögugerð sem er nauðsynlegt til að allt komi rétt fram. Ríkisstjórnin hefur lagt til að 37 milljónir verði settar í að fjölga aðstoðarmönnum og eru engin haldbær rök fyrir þeirri auknu fjárveitingu. Við framsóknarmenn leggjum því til að þessar 37 milljónir, sem eiga að fara í aðstoðarmenn ráðherra, verði teknar og settar í fastanefndir Alþingis til að efla það starf sem þar verður að fara fram. Hvað sem mönnum finnst um að efla Alþingi þá skiptir þetta máli til þess að það starf sem þar fer fram sé eins vandað og hugsast getur. Hversu oft horfum við upp á að tillögugerð eða frumvarpsgerð sé ekki nægilega vönduð? Ég vil benda á að í þingsköpum Alþingis, sem voru samþykkt núna í haust, er hvergi kveðið á um að efnahags- og viðskiptanefnd eigi að skila áliti hvað varðar tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Þetta eru bara mistök sem áttu ekki að verða. Það er hægt að koma í veg fyrir mistök af þessu tagi með vandaðri starfsemi innan Alþingis. Alþingi hefur tekið á sig miklu meiri niðurskurð en öll ráðuneytin. Í raun er engin hagræðingarkrafa gerð á aðalskrifstofur ráðuneytanna, sem er til skammar fyrir ríkisstjórnina. Við leggjum til að aðalskrifstofurnar taki á sig 3% hagræðingarkröfu. Þetta er reyndar ein af tillögunum sem mjög erfitt er að átta sig á og mér var bent á hér áðan. Ég mun samþykkja þær tillögur sem ganga út á að leggja jafnvel meiri niðurskurð á aðalskrifstofur ráðuneytanna.

Annar minni hluti hefur líka gagnrýnt að Harpa hefur fengið styrk frá ríkinu en önnur menningarhús, t.d. Hof á Akureyri, hafa verið skilin eftir. Við leggjum því til að Menningarhúsið Hof fái hlutfallslega sambærileg framlög úr ríkissjóði. Þetta eru ekki háar fjárhæðir, 60 milljónir, en gera það að verkum að jafnræðis sé gætt milli þessara tveggja menningarhúsa.

Eins og ég hef komið að hefur ríkisstjórninni einfaldlega mistekist að ná þeim markmiðum sem hún setti sér á árinu 2009. Í 1. umr. um fjárlögin fyrr í haust og einnig á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga ræddi hæstv. fjármálaráðherra eingöngu um það að árangur hefði náðst hvað frumjöfnuð varðar. Ég benti á að það væri einfaldlega ekki rétt nálgun á ríkisreikninginn, það ætti miklu frekar að taka heildarjöfnuðinn vegna þess að þar væru vaxtagreiðslurnar og allur fjármagnskostnaður meðtalinn. Ríkisendurskoðun hefur lagt fram athugasemdir þar sem þessi framsetning stjórnvalda er gagnrýnd og segir að ekki sé annað að sjá en verið sé að setja þetta fram, hvað frumjöfnuðinn varðar, til að fegra þá mynd sem við horfum á varðandi fjárlögin á hverju ári. Ég get samt upplýst að meira að segja frumjöfnuðurinn er farinn og þau markmið sem hæstv. fjármálaráðherra stærði sig af í 1. umr. um fjárlögin og þá er í raun ekkert eftir af þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér sjálf.

Tíma mínum er senn lokið. Ég ætla að ítreka þakkir mínar til félaga minna í fjárlaganefnd, þeirri nefnd sem hefur hist langoftast að öðrum nefndum ólöstuðum frá því að ný ríkisstjórn tók við árið 2009. Fjárlaganefnd hefur síðan þá komið saman og fundað á sumrin, í jólafríum og langt fram á vor til að fjalla um Icesave. Þar fyrir utan hafa verið erfið fjárlög — við höfum verið að nánast fram á aðfangadag. Nú stendur til að breyta þessu og kynna fjárlögin fyrr á næsta ári, um miðjan september, að mér skilst. Ég held það sé jákvætt, ég held það sé þá líka jákvætt að við klárum þau aðeins fyrr til að stofnunum gefist ráðrúm til að átta sig á hverjar fjárheimildir þeirra séu fyrir næsta fjárlagaár. Það skiptir þó öllu máli að búið sé að vinna málið vel þar á undan, búið að gera allar þær úttektir og greiningar sem kallað hefur verið eftir.

Ég vil benda sérstaklega á að fyrir ári var samþykkt að gerð yrði byggðaúttekt á áhrifum niðurskurðar í heilbrigðismálum á landsvísu. Það var ekki gert. Ekki var gerð úttekt á því hvort niðurskurðurinn skilaði þeim tekjum sem hann ætti að gera með því að flytja verkefni fyrst og fremst hingað til höfuðborgarsvæðisins. Það eru algjörlega óásættanleg vinnubrögð. Ég ætla hér í lokin að gagnrýna harðlega þá stefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur tekið hvað varðar heilbrigðismál þjóðarinnar og þá óvissu þau eru komin í. Engin ákveðin stefna liggur til grundvallar þeirri breytingu sem ráðist hefur verið í í gegnum fjárlögin. Meiri hluti velferðarnefndar viðurkennir það í áliti sínu til fjárlaganefndar. Þar er viðurkennt að ekki hafi farið fram umræða um það hvernig við viljum sjá heilbrigðiskerfið hér á landi til langs tíma.

Hvaða heilbrigðiskerfi var verið að breyta? Það var verið að breyta kerfi sem var lofsvert á alþjóðavísu, þannig dæmt af OECD, sem sagði: Heilbrigðiskerfi Íslendinga er lofsvert og aðrar þjóðir eiga að taka það sér til fyrirmyndar. Það er verið að gjörbylta þessu kerfi í gegnum fjárlög Íslendinga og á því bera engir aðrir ábyrgð en þeir sem sitja núna í ríkisstjórn, þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Það skiptir engu máli þó að einstakir þingmenn leyfi sér að koma hingað upp og benda á að fæðingarþjónusta víðs vegar um landið hafi breyst, niðurskurðurinn er á þeirra ábyrgð, þeir samþykktu að fara í þessa vegferð í fyrra þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað á opnum borgarafundum víðs vegar um landið. Þetta eru vinnubrögð sem við getum ekki horft upp á hér á Alþingi Íslendinga.

Ég velti því fyrir mér hvort vandinn liggi einfaldlega í því að forustumenn í ríkisstjórnarflokkunum hafa setið manna lengst á Alþingi og þekkja kannski ekkert annað en þau vinnubrögð sem hafa því miður viðgengist hér. Sem betur fer hefur orðið endurnýjun í flokkunum, í sumum meiri en öðrum. Við framsóknarmenn köllum eftir nýjum vinnubrögðum. Við höfum lagt fram tillögur sem miða að því að sá niðurskurður sem fór langt úr hófi fram verði bættur þeim heilbrigðisstofnunum sem hann þurftu að þola. Við munum greiða atkvæði um þær tillögur á morgun.