140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð yfir fjárlögin og hugmyndir hans. Hann kom inn á það, þó ekki nægilega mikið, að hér væri allt komið í kyrrstöðu og stöðnun, og maður verður var við það þegar talað er við fólk í þjóðfélaginu.

Þær hugmyndir sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði á sínum tíma og hefur enn í efnahagstillögum sínum fólust í því að gefa fólki von og snúa við skattstefnu ríkisstjórnarinnar sem heldur að hægt sé að skatta þjóðina út úr vandanum, sem er náttúrlega algjör meinloka.

Við ætluðum að lækka skatta, alla vinstri skattana, eða fella þá niður. Við ætluðum að fjármagna það með skattlagningu á séreignarsparnað, þ.e. ná í gegnum skattlagningu á séreignarsparnað eign sem ríkið á í þeim sjóðum. Við ætluðum líka að koma með auknar aflaheimildir. Þetta var hluti af heildstæðu prógrammi sem fólst í því að setja kraft og von aftur inn í þjóðfélagið. Þess vegna eru það ákveðin vonbrigði að hv. þingmaður tekur hluta af þessum aðgerðum Sjálfstæðisflokksins, þ.e. séreignarsparnaðinn, ætlar að helminga hann og nota hann eiginlega eingöngu til þess að lækka skuldir ríkissjóðs og setja peninga í hitt og þetta, mjög víða, þar á meðal í Hof. Ekki kemur fram hvort það eigi að vera árlegt gjald eða hvernig menn hugsa það, en ef það á að vera í takt við Hörpu er þetta væntanlega eitthvað sem verður á hverju ári. En þetta eru allt útgjöld. Þetta er ekki til að lækka skatta á almenning, ekki til að keyra atvinnulífið áfram, ekki til að setja þjóðina í gang og allt atvinnulífið. Út á það gengu tillögur Sjálfstæðisflokksins.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig ætlar hann að fara að því tæknilega að taka helminginn af skattinum af séreignarsparnaðinum? Hvernig ætlar hann að (Forseti hringir.) keyra upp atvinnulífið?