140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætti kannski að byrja á að tala um séreignarsparnaðinn sem tveir hv. þingmenn áttu orðastað um áðan. Ég held hins vegar að sú tillaga sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson mælir hér fyrir sé ekki framkvæmanleg út af flækjustiginu. Það getur vel verið að hv. þingmaður geti haldið því fram að öll séu mál leysanleg en ég held að það sé mikið skynsamlegra að fara þá leið sem við höfum boðað í tillögu okkar, þ.e. að ef viðkomandi lífeyrissjóður er búinn að festa fjármagnið til ákveðins tíma í ákveðin verkefni er hægt að gefa út skuldabréf til að koma til móts við það sem hv. þingmaður lætur liggja að hér.

Hv. þingmaður óskaði eftir því að menn brygðust við breytingum varðandi svokallaða safnliði. Hann sagði í ræðu sinni að hann hefði miklar efasemdir um svokallaða menningarsamninga og nefndi dæmi um að sveitarstjórnarmenn rifust um hvernig úthlutað væri úr þeim liðum til einstakra sveitarfélaga. Telur hv. þingmaður að við eigum þá að hætta með menningarsamningana yfirleitt og taka allt óskipt í fjárlaganefnd og úthluta úr safnliðum?

Markmið meiri hluta nefndarinnar, sem allir standa að nema einn hv. þingmaður, er að auka fagleg vinnubrögð við úthlutun úr safnliðum og það er okkar að sjá til þess að það gangi eftir.

Hv. þingmaður sagði líka að það væri munur á Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum hvað tillögurnar varðar. Því vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort við í Sjálfstæðisflokknum eða fulltrúar okkar í fjárlaganefnd getum átt von á því að hv. þingmaður styðji tillögur okkar sem fjalla um að rétta af hlut heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, vegna þess að ekki leggur hv. þingmaður sjálfur fram tillögur um að það verði gert.