140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:11]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hér er unnið að því að afgreiða fjárlögin á harðaspani eins og oft áður. Ég ætla að byrja á að ræða það aðeins að vinnubrögðin við þessi fjárlög, eins og önnur sem ég hef komið að í þinginu, einkennast af þeim sama mikla hraða og óðagoti sem er á öðrum þingstörfum. Eins og kom fram fyrr í dag var byrjað að ræða fjárlögin án þess að þingskjölin varðandi þau væru tilbúin og menn voru að ræða um eitthvað sem þeir vissu í raun ekki hvað var. Þar var um að ræða breytingartillögur frá hv. þingmönnum Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur sem nú hafa séð dagsins ljós. Þess má líka geta sem er ekki gott, að þeir þrír þingmenn sem eru utan flokka á þingi í dag hafa enga aðkomu að skipulagi eða verkáætlunum þingsins. Þeir mæta ekki á fundi þingflokksformanna og hafa heldur ekki áheyrnarfulltrúa í forsætisnefnd. Á þessu þarf að gera bragarbót því að þessir þingmenn, þó að utan flokka séu, eru að sjálfsögðu alveg jafngildir þingmenn og aðrir. Það er mjög vont þegar þingmenn, hverra hluta vegna sem það er, verða á þennan hátt út undan í þingstörfunum, eins og virðist hafa verið að koma í ljós núna í lok umræðunnar hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni. Hann hefur lagt fram breytingartillögur sem hann er mjög áfram um að nái fram að ganga en vegna hraðans sem var á afgreiðslu á breytingartillögum hans virðast þær einfaldlega ekki hafa náð inn í skjalið. Þær hafa verið ræddar en hann reiknaði kannski ekki með þessu og rak ekki augun í þetta fyrr en rétt áðan. Þetta eru vinnubrögð sem þarf að laga hér á þinginu. Nú er 6. desember og 25 dagar til áramóta og það liggur ekki svo mikið á að það borgi sig að afgreiða fjárlögin með svo miklu óðagoti.

Við í Hreyfingunni höfum enn þá afstöðu til fjárlaganna að allt of stór hluti tekna ríkisins fari í vaxtagjöld og sú skoðun okkar er óbreytt, að ríkissjóður muni ekki geta staðið undir vaxtagjöldunum nema með áframhaldandi hörmungum sem lúta að áframhaldandi niðurskurði í heilbrigðismálum, velferðarmálum og menntamálum. Heilbrigðiskerfið hefur þegar verið skaðað illa og þessi aðferð, að endurskipuleggja heilbrigðiskerfi alls landsins í gegnum fjárlagagerðina, er með öllu óásættanleg og óboðleg. Hún hefur vakið úlfúð um allt land, bæði í Reykjavík og annars staðar. Ég þekki til dæmis persónulega til á Landspítalanum og heyri þaðan sögur í hverri einustu viku um hvernig starfsemin þar er einfaldlega að molna niður í höndunum á starfsfólkinu. Þetta er ófremdarástand.

Hér ríkir neyðarástand vegna algers hruns í efnahagsmálum og tekjum ríkissjóðs og eins og við höfum bent á er leiðin út úr því að semja við þá sem ríkissjóður skuldar svo mikið fé um hlé í einhvern tíma á hluta af vaxtagreiðslunum, með vísan í neyðarástand. Það er sjálfsagt og eðlilegt að reyna að fara þá leið og í rauninni miklu betri og heppilegri en að skera niður eins og hér er gert. Með því að halda áfram fjármögnun af hálfu ríkisins til heilbrigðismála aukast tekjur að sjálfsögðu á móti í gegnum skatttekjur þannig að þetta er ekki allt saman tap. Við erum enn þeirrar skoðunar að hér sé einfaldlega röng nálgun að takast á við halla ríkissjóðs með slíkum niðurskurði og það megi gera hlutina öðruvísi.

Ég fagna hins vegar mjög mörgum þeirra breytinga sem hafa verið gerðar milli 2. og 3. umr. á fjárlagafrumvarpinu. Hér var haldið uppi allharðri gagnrýni á ýmis mál, meira að segja af minni hálfu, við 2. umr. Sum þeirra hafa verið lagfærð til muna. Þar leyfi ég mér fyrst að nefna úrlausnina í fangelsismálinu og byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði. Fjárlaganefnd tók á endanum af skarið með það að veittir verða fjármunir í undirbúning og hönnun á nýju fangelsi á Hólmsheiði. Það er mjög brýnt að af þeirri framkvæmd verði vegna þess, eins og ég hef tæpt á, að eitt risastórt afplánunarfangelsi á Litla-Hrauni er óheppilegt. Það er óhagkvæmt, það er óheppilegt fyrir fangana og fyrir starfsfólkið og óheppilegt fyrir það litla sveitarfélag sem þar er.

Fangavarsla er með eindæmum neikvætt starf. Að hafa það að aðalatvinnu að passa upp á að fólk sé lokað inni í klefum á stofnunum er ekki beinlínis skemmtilegasta starf í heimi. Þess vegna er mjög mikilvægt að fangaverðir hafi fleiri leiðir en að þurfa að vinna á sama vinnustaðnum ef til vill alla ævi. Ég hef bent á að sameining Landspítala og Borgarspítala á sínum tíma hafði til dæmis afgerandi slæm áhrif á móral starfsfólksins. Fyrir sameininguna, ef fólk var óánægt á öðrum staðnum, gat það fært sig yfir á hinn. Eftir sameininguna var það ekki lengur hægt.

Fleiri en eitt fangelsi býður líka upp á miklu fjölbreyttari og betri úrræði og meira hugmyndaflug í afplánunarúrræðum. Það þurfa ekki allir að vera lokaðir inni á sömu stofnun og hafa samneyti við sama hóp af fólki. Hægt er að skipta hópum upp með meira afgerandi hætti, fyrir utan að það er náttúrlega ekkert vit í því að þurfa alltaf að keyra gæsluvarðhaldsfanga alla þessa leið, kannski oftar en einu sinni á dag. Ég fagna því þessari niðurstöðu. Það verður byggt fangelsi á Hólmsheiði og undirbúningur að því verður hafinn og jafnframt unnið að brýnum úrbótum á fangelsinu á Litla-Hrauni. Það er vel. Þó að margir telji sem svo að fangar eigi ekkert gott skilið er það einfaldlega ekki góð leið til betrunar fanga, ef menn aðhyllast þá hugmyndafræði, að búa mjög illa að þeim og komið illa fram við þá.

Ég geri athugasemdir við einn lið þar sem sóknargjöld eru hækkuð um 90 millj. kr., að því er sagt er vegna einhvers konar mistaka í útreikningi á sóknargjöldum. Mér er kunnugt um þann mikla áróður sem kirkjan hefur rekið fyrir hækkun sóknargjalda en ég tel að sóknargjöld til þjóðkirkjunnar eigi að vera eins og gjöld í öðrum félagasamtökum, hvort sem það er KR eða Amnesty International eða hver svo sem þau eru, sóknirnar eigi að innheimta sóknargjöld sín sjálfar og reka svo starfsemi sína og kirkjur í samræmi við það sem innheimtist. Þó að gert sé ráð fyrir þjóðkirkju í lögum og í stjórnarskrá fyndist mér miklu betri bragur á því og eðlilegra að fólk greiddi sóknargjöld í sóknum sínum ef það hefur áhuga á því.

Annað ánægjulegt atvik gerðist hér í meðförum frumvarpsins milli 2. og 3. umr., varðandi mál sem sumir bentu á og mér er kunnugt um að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hafi meðal annars beitt sér fyrir. Það er að nú eru komnar inn 30 millj. kr. til Klausturstofu. Klausturstofa er það verkefni sem öll sveitarfélög á Suðurlandi sameinuðust um að styðja sem hluta af 20/20-verkefni ríkisstjórnarinnar. Öll þessi sveitarfélög hafa átt í efnahagslegum erfiðleikum en komust að þeirri niðurstöðu, eftir mikið samráð og mikla samvinnu, að nauðsynlegast væri að aðalverkefni 20/20-áætlunarinnar á þessu svæði yrði á Kirkjubæjarklaustri vegna þess að verst væri komið fyrir þeim stað í landshlutanum. Þarna eru stór landsvæði við það að leggjast í eyði vegna brottflutnings fólks. Mér er kunnugt um að sveitarstjórninni á Kirkjubæjarklaustri er mjög í mun og bjartsýn á að þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri muni eiga þátt í að snúa þeirri þróun við. Í skýringum við breytingartillöguna segir, með leyfi forseta:

„Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til undirbúnings, þarfagreiningar og hönnunar á húsi fyrir þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri. Í kjölfar þeirra áfalla sem byggðin í Skaftárhreppi varð fyrir í Grímsvatnagosinu síðastliðið vor var unnin ítarleg úttekt á innviðum samfélagsins þar og bent á nokkur atriði sem gætu orðið til að styrkja samfélagið sem glímir við alvarlega fólksfækkun. Ein þeirra tillagna sem átti sterkan hljómgrunn heima fyrir var frekari uppbygging Vatnajökulsþjóðgarðs og hugmynd um byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri sem m.a. hýsti gestastofu þjóðgarðsins á svæðinu. Fræðslu- og þekkingarstarfsemi sem tengist gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs mun styrkja innviði og stoðir samfélagsins, efla listir og menningu og styrkja ferðaþjónustu svæðisins, ekki síst varðandi möguleika til heilsársstarfsemi. Slík starfsemi mun einnig styrkja landbúnaðinn sem er undirstöðuatvinnugrein svæðisins.“

Einhverra hluta vegna er þetta fært undir liðinn Vatnajökulsþjóðgarður, ég átta mig ekki nákvæmlega á hvers vegna það er gert, en ég er mjög ánægður með að þessi niðurstaða skuli vera fengin því að Klausturstofa, með þeim áætlunum sem uppi eru um að hún verði gestastofa fyrir svæðið og hýsi meðal annars gestastofu fyrir Vatnajökulsþjóðgarð, stjórnsýsluna í Skaftárhreppi og listasafn Errós, því að hann er líka fæddur og uppalinn á Kirkjubæjarklaustri, mun verða mikil lyftistöng fyrir þetta svæði. Það er fagnaðarefni að þessi niðurstaða hafi náðst og gott mál.

Ýmsar breytingartillögur við fjárlögin hafa verið lagðar fram af stjórnarandstöðunni. Breytingartillögur Sjálfstæðisflokksins eru mjög margar og ítarlegar og margar ágætlega ígrundaðar og við munum styðja talsverðan hluta þeirra í atkvæðagreiðslu. Við fögnum því að þær eru komnar fram og viljum leggja lóð okkar á þær vogarskálar að meiri hluti verði í þinginu fyrir viðsnúningi niðurskurðar í heilbrigðismálum og vonum að sem flestir þingmenn taki þátt í því.

Breytingartillögur Framsóknarflokksins eru líka sumar um margt merkilegar og þó að þeirra sjái ekki stað á prenti vegna þess að einhver mistök virðast hafa orðið við prentun á breytingaskjalinu, beinast þær líka að því að snúa við niðurskurði í heilbrigðismálum og á enn róttækari hátt en tillögur sjálfstæðismanna, ef ég skil fulltrúa Framsóknarflokksins rétt. Við munum að sjálfsögðu taka líka til skoðunar að styðja þær tillögur þegar þær liggja skýrt fyrir og fögnum þeim. Eins hafa hv. þingmenn Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir lagt fram breytingartillögur sem við munum styðja og sjálfur er ég á einni tillögu með hv. þm. Lilju Mósesdóttur um fjármál flokkanna þar sem lagt er til að útgjöld úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka á næsta ári falli einfaldlega niður.

Fjármál stjórnmálaflokka eru að mínu mati í miklum ólestri. Fjármunum er úthlutað af ósanngirni og óréttlæti og alls ekki í samræmi við þarfir stjórnmálaflokkanna. Að sjálfsögðu eiga stjórnmálaflokkar að njóta jafnræðis við úthlutun á skattfé. Með nútímatækni er ekki miklu dýrara að reka stærri stjórnmálaflokk en minni. Á móti kemur að þeir fá inn meiri fjármuni í félagsgjöld ef eitthvað er. Við höfum ítrekað lagt fram breytingartillögur við lög um fjármögnun stjórnmálahreyfinga í þá veru. Þær tillögur hafa ekki náð fram að ganga á þinginu og á meðan svo er munum við einfaldlega styðja breytingartillögu um að þessi liður falli alfarið niður. Snemma á næsta ári munum við leggja fram enn einu sinni breytingartillögu við lög um fjármögnun stjórnmálaflokka í þeirri von að þingið taki við sér og afnemi endanlega framlög frá lögaðilum og nafnlaus framlög frá einstaklingum.

Mig langar að tæpa á einu atriði í viðbót, hæstv. forseti, og það er að ég hef eins og fleiri fengið yfir mig skæðadrífu af tölvupóstum frá Austfjörðum undanfarna daga þar sem þess er krafist að ég greiði atkvæði gegn fjárlögunum vegna þess að í þeim er ekki gert ráð fyrir Norðfjarðargöngum. Ég mun sennilega greiða atkvæði gegn fjárlögunum þegar upp er staðið, en ekki vegna þessa eingöngu. Ég þekki það ágætlega að Norðfjarðargöng eru að mörgu leyti brýn framkvæmd og að sönnu miklum mun brýnni en Vaðlaheiðargöng, hvað umferðaröryggi varðar. En eina ástæðan fyrir því að Norðfjarðargöng eru ekki í samsvarandi forgangi og Vaðlaheiðargöng, því miður, er sú að það eru fleiri kjósendur á Akureyri en á Norðfirði. Þannig er forgangsröðun þingmanna þessa kjördæmis og vegna þess munu Norðfjarðargöng mæta afgangi þetta árið og það er kannski ekki svo gott mál öryggisins vegna. Brýnasta vandann með Oddsskarðsgöngin má leysa að einhverju leyti með auknum almenningssamgöngum, flutningar á fólki á þessu svæði eru að mestu leyti milli þriggja staða, annars vegar af svæðinu inn á Norðfjörð í verkmenntaskólann og á sjúkrahúsið, og svo frá Norðfirði og til álversins í Reyðarfirði. Slíkri umferð má sinna með almenningssamgöngum og tempra þá að verulegu leyti alla þá miklu bílaumferð sem er um þetta svæði því að hún er ekkert endilega af hinu góða.

Að síðustu langar mig að þakka fjárlaganefnd, og ég hef verið mjög duglegur við að gera það í ræðu minni, og einnig allsherjar- og menntamálanefnd fyrir niðurstöðuna um heiðurslaun listamanna. Heiðurslaun listamanna og afgreiðsla þeirra af hálfu Alþingis hefur verið til háborinnar skammar í áratugi og það hvernig Alþingi hefur ætíð tekið pólitískan vinkil á það hvaða listamenn fá úthlutað hefur verið með eindæmum og sorglegt. Það var ömurlegt að sjá við afgreiðslu þessa máls úr allsherjar- og menntamálanefnd að fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sáu sér ekki fært, vegna einhvers í pólitískri fortíð Sigurðar A. Magnússonar, að styðja tillögu um listamannalaun til handa honum. Menn hafa alltaf dregið upp ótrúlegustu ástæður fyrir því að styðja ekki listamannalaun til einstakra manna. Frægastar eru deilurnar um hv. þm. Þráin Bertelsson á sínum tíma þar sem honum var hafnað ítrekað vegna þess að hann var talinn styðja Framsóknarflokkinn. Það er sorglegt að þessu tímabili skuli ekki vera lokið en þó er gleðilegt að í stað þess að nefndin þurfi að sammælast um þessa niðurstöðu skuli meiri hlutinn þó hafa haft þann kjark sem þarf til að afgreiða þetta svona og veita þessum mikla rithöfundi og listamanni heiðurslaun. Ég fagna því.

Að endingu langar mig að tæpa á einu atriði sem ég hefði viljað heyra meira um frá hv. formanni fjárlaganefndar en það er fjármál stjórnmálaflokka sem ég talaði um áðan. Það er enn gert ráð fyrir því að stjórnmálaflokkar sem eru á þingi fái um 200 millj. kr. í framlög fyrir næsta ár þrátt fyrir að tveir þeirra hafi ekki skilað inn ársreikningi á réttum tíma, þ.e. fyrir 1. október. Enn þann dag í dag hefur Framsóknarflokkurinn ekki skilað ársreikningi. Það stendur í lögum um fjármál stjórnmálaflokka að ársreikningi skuli hafa verið skilað inn 1. október hvert ár. Einnig segir í lögunum, með leyfi hæstv. forseta:

„Hver sem skilar ekki upplýsingum eða skýrslum samkvæmt ákvæðum laga þessara til Ríkisendurskoðunar innan tilgreindra tímamarka skal sæta sektum.“

Þetta eru lög sem þingmenn sjálfir hafa samþykkt og það er í rauninni ótrúlegt að horfa upp á að þingmenn skuli samþykkja fjárlög, nefndarmenn í fjárlaganefnd skuli samþykkja frumvarp út úr fjárlaganefnd án þess að þetta sé rætt og án þess að á þessu sé tekið. Þetta er ekki einhver persónuleg óvild mín í garð þessara stjórnmálaflokka, heldur finnst mér einfaldlega ekki boðlegt fyrir almenning í landinu að stjórnmálaflokkarnir sjálfir og þingmenn þeirra á þingi geti ekki passað betur upp á þetta. Mig langar að hvetja núna framsóknarmenn sérstaklega til að taka sig á í þessu máli og útskýra nákvæmlega fyrir þingheimi og almenningi hvernig standi á þessum drætti og hvort þeir muni bæta úr. Þetta er annað árið í röð sem þetta gerist. Það væri svo sem ágætt að fá útskýringu frá sjálfstæðismönnum líka, hvernig standi á þessu. Þingið hefur samþykkt hér lög sem þingmenn sjálfir fara svo ekki eftir. Það er ótrúlegt virðingarleysi við lögin og þetta verðum við að leggja af.