140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil aðeins fá að koma inn á það sem hann nefndi í sambandi við sóknargjöldin. Það kom í ljós í meðförum hv. fjárlaganefndar á þeim lið að sóknargjöldin hefðu verið skert um 25% umfram það sem aðrir hefðu verið skertir á liðum hjá innanríkisráðuneytinu sem er í kringum 530 millj. kr. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér það að á sínum tíma þegar þetta var undir sveitarfélögunum, og ég held að árið 1987 hafi þetta verið sameinað inn í tekjustofnana og fært þannig yfir þannig að hlutirnir eru kannski ekki alveg eins og þeir líta út fyrir að vera að því leyti til að búið er að færa ákveðnar tekjur inn í skattprósentuna sem voru áður sóknargjöld hjá kirkjunum.

En það er eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, þar sem hann nefnir nýja fangelsisbyggingu: Telur hann eðlilegt að ákveðið sé að fara í þessa hönnunarvinnu áður en búið er að taka ákvörðun um hvort þetta eigi að vera einkaframkvæmd eða ríkisframkvæmd?