140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja í tilefni af orðum hv. þm. Þórs Saaris að ég tek undir með honum að stjórnmálaflokkar eins og aðrir eiga að virða lög. Það er okkar að komast að því af hverju ekki er búið að skila þessum reikningum hjá Framsóknarflokknum, en annað í ræðu hv. þingmanns, ég verð að segja, frú forseti, og það verður þá bara að þýða bjöllu, var alveg ótrúlegar dylgjur, lygi og rugl. Þingmaðurinn kemur hérna upp og heldur því fram að framsóknarmenn hafi lagst gegn því að Sigurður A. Magnússon færi á heiðurslaunalistann út af pólitískum skoðunum. Ég held að þingmaðurinn ætti að vera maður að meiri og biðjast afsökunar á þessu ef hann hefur ekki hugmynd um hvað gekk á inni á þessum fundi. Ég held að hann ætti að minnsta kosti ekki að gera þingmönnum Framsóknarflokksins upp einhverjar annarlegar skoðanir, hafa þær bara fyrir sig, því að ég held að þær eigi ágætlega heima þar. Þegar menn tala með þessum hætti sem hv. þingmaður talar hér yfirleitt við þingheim og við þingmenn og þykist svo tala í nafni þjóðarinnar, mælist varla í skoðanakönnunum.