140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:47]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að heyra. Við töluðum um það við fjárlagagerðina í fyrra að það væri algjörlega ótækt það sem verið var að gera, þ.e. verið var að endurskipuleggja hér heilbrigðiskerfið úti um allt land í gegnum fjárlögin og við töluðum gegn þeim vinnubrögðum. Þó að vissulega hafi náðst fram umtalsverður árangur í sparnaði í heilbrigðiskerfinu hefur hann líka haft slæmar afleiðingar í för með sér og verstu afleiðingarnar eru kannski miklu verri mórall á þessum vinnustöðum sem heilbrigðisstofnanirnar eru sem bitnar vonandi ekki, en þó með einhverjum hætti, á sjúklingunum líka og veldur almenningi miklum vonbrigðum. Viðsnúningurinn á niðurskurðinum frá því í fyrra líka er æskilegur og við styðjum það og vonum svo að ríkisstjórnin hafi bein í nefinu, og þá hæstv. velferðarráðherra, til að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna, ef hann hefur áhuga á að gera það, á faglegan hátt en ekki í gegnum fjárlögin.