140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:04]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins eru með öðrum hætti en markaðir tekjustofnar til annarra aðila. Það gilda sérlög um Fjármálaeftirlitið og það er á grundvelli þeirra laga sem ríkislögmaður kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að rýra fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins frá því sem segir í þeim lögum, jafnvel með fjárlögum. Það er niðurstaða ríkislögmanns. Ef menn vilja breyta því þá verða þeir að breyta löggjafarumhverfi Fjármálaeftirlitsins. Þetta hefur verið löng og athugasemdalaus venja frá setningu þessara laga árið 1999 og ég ætla fyrir mitt leyti ekki að grafa undan fjárveitingum til Fjármálaeftirlitsins. Það verða aðrir að gera það. Og ef menn vilja veikja grundvöll Fjármálaeftirlitsins til að sinna sinni vinnu og standa í þeim rannsóknum sem nú standa yfir þá finnst mér að menn eigi bara að segja það.