140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki þannig að fjárlagafrumvarp sé unnið af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Fjárlagafrumvarpið, með skýringum, er á ábyrgð fjármálaráðherra. Í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram í haust var ekki byggt á rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins sjálfs eins og efnahags- og viðskiptaráðuneytið gerir í framlögðu frumvarpi heldur byggt á sjálfstæðum útreikningum fjármálaráðuneytis. Þar af leiðandi var misræmi á milli þeirrar fjárhæðar sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu og þeirrar fjárhæðar sem kemur fram í því frumvarpi sem ég á eftir að mæla fyrir. Þess vegna verður þetta svo skaðlegt. Þetta hefur oft gerst áður. Það var misræmi í fyrrahaust líka, misræmi á milli fjárlagafrumvarps annars vegar og frumvarpsins frá efnahags- og viðskiptaráðherra hins vegar. En það var þó alla vega ljóst við þinglega meðferð málsins að önnur lína var tekin af hálfu fjármálaráðuneytisins.

Þetta verður mjög skaðlegt í meðförum núna þegar frumvarpið, sem mér ber lögum samkvæmt — og auðvitað samkvæmt stjórnarskrá, þetta eru embættisskyldur mínar — að leggja fram einu sinni á ári, kemst ekki fram.