140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:11]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég á við um viljayfirlýsinguna og þýðingu hennar er einfaldlega það að þar var gefið fyrirheit um að Fjármálaeftirlitið fái fullnægjandi tekjur til að tryggja að stofnunin geti innt skyldur sínar af hendi þannig að árangur náist. Síðan liggur fyrir mat alþjóðlegs sérfræðings á því hvernig það þurfi að gerast. Ég tel þar af leiðandi að það takmarki svigrúm mitt sem ráðherra. Ég er ekki tilbúinn að leggja til eitthvað annað en það sem er fullnægjandi í því efni.

Ég gerði hins vegar athugasemdir við það áðan, og það varðar grunnumræðuna um þetta mál allt, að fjármálaráðuneytið skuli hafa tafið afgreiðslu kostnaðarmats þannig að tillögur mínar um fjárveitingaramma til Fjármálaeftirlitsins hafa aldrei komist til þinglegrar umræðu. Fjárlaganefnd hefur aldrei haft nægjanlega traustan grunn til að vinna á vegna þess að, öfugt við það sem gerist venjulega, fagnefndin hafði engar forsendur til að veita fjárlaganefnd ráð um fjárhæð eftirlitsgjalds.